„Við ætlum okkur alla leið“

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir 0-2 sigur á Fram á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Það er hrikalega gaman að vera komnir áfram. Ég man ekki hvenær við komumst svona langt síðast þannig að þetta er frábær árangur og við ætlum okkur alla leið í úrslitaleikinn,“ sagði Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Honum og öðrum til fróðleiks má geta þess að Selfoss komst síðast í undanúrslitin árið 1969 og lék þá gegn Íþróttabandalagi Akureyrar á Melavellinum, en tapaði 3-1. Í ár eru FH, Valur og ÍBV eftir í pottinum með Selfyssingum.

Stefán Ragnar segir að leikurinn í kvöld hafi verið erfiður, en skemmtilegur.

„Framararnir voru kannski meira með boltann en fengu varla færi. Okkur tókst vel að verjast, þeir eru með stóran mann frammi sem þeir voru að leita að og undir lokin dældu þeir boltanum fram en Andy [Pew] skallaði það allt frá. Hann er frábær í loftinu og eins og við spiluðum í kvöld þá var þetta vel leyst hjá okkur. Við vorum skipulagðir og þéttir og menn alltaf tilbúnir fyrir aftan í bolta númer tvö.“

Selfoss komst yfir strax á níundu mínútu með marki Pachu úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Þegar leið á fyrri hálfleikinn og í upphafi seinni hálfleiks sóttu Framarar meira en Selfoss átti góðar sóknir inn á milli. Fyrirliðinn viðurkennir að annað markið, sem var sjálfsmark Framara á 74. mínútu hafi létt Selfyssingum lífið.

„Það var mjög ljúft að sjá boltann aftur í netinu og það það létti þetta aðeins fyrir okkur. Við kláruðum þetta vel og bíðum núna spenntir eftir undanúrslitunum. Mér er sama hver mótherjinn verður þar. Bara eitthvað skemmtilegt lið og helst á heimavelli,“ sagði Stefán Ragnar að lokum.

Dregið verður í undanúrslitin í hádeginu á morgun.

Fyrri greinMikið annríki hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar
Næsta greinLoksins sigur hjá Ægi