Víðir sjöundi á Íslandsmótinu

Selfyssingurinn Víðir Freyr Guðmundsson varð í 7. sæti á Íslandsmeistaramótinu í póker en lokaborð mótsins var spilað í gær.

Um síðustu helgi hófu 142 keppendur leik á Hótel Borgarnesi og var spilað til þrautar þar til níu spilarar voru eftir. Þeir tóku þátt í lokaborðinu fyrir framan myndavélar og áhorfendur á Pókerklúbbnum Casa í Reykjavík í gær.

Víðir kom sjötti hæstur inn á lokaborðið en eftir rúmlega tveggja tíma spilamennsku féll hann úr leik. Víðir fór þá allur inn með tvær drottningar á hendi en væntanlegur Íslandsmeistari, Eysteinn Einarsson, snappkallaði með tvo ása á hendi og hafði betur eftir að borðið rann.

Allir keppendurnir á lokaborðinu fengu peningaverðlaun og komu 250.000 krónur í hlut Víðis. Íslandsmeistarinn fékk 1.950.000 krónur fyrir fyrsta sætið.

Fyrri greinLaunakostnaður eykst um hálfan milljarð
Næsta greinStrákarnir okkar: Viðar markakóngur í Noregi