Viðbrögð leikmanna: „Svona á þetta að vera í úrslitakeppninni“

FSu tryggði sér oddaleik í einvíginu gegn Hamri með því að sigra 74-70 í Iðu í kvöld.

Sunnlenska.is heyrði hljóðið í Ara Gylfasyni, FSu og Lárusi Jónssyni, Hamri, eftir leik og þeir voru báðir þrælbrattir og spenntir fyrir oddaleiknum.

„Við komum til baka í kvöld, það er klárt, og við sýndum það og sönnuðum að við getum þetta. Liðin skiptust á áhlaupum og þegar þeir komust á skrið þá héldum við þeim í mátulegri fjarlægð, öðruvísi en í síðasta leik, þar sem þeir stungu okkur af. Við komum til baka og kláruðum þetta í dag,“ sagði Ari. „En þetta var spennandi og skemmtilegur leikur, svona á þetta að vera í úrslitakeppninni. Nú er bara einn leikur eftir, við höfum oft verið slakir á útivelli í vetur þannig að við verðum að mæta vel stemmdir til leiks og þá er allt hægt.“

Lárus var sammála Ara að leikurinn hafi verið eins og úrslitaleikir eigi að vera. „Mér fannst þetta góður leikur. Mér fannst við vera komnir með þetta í fyrri hálfleik en svo komu þeir mjög sterkir til baka. Þeir fóru í það að verja forystuna undir lokin og við reyndum að vera agressívari. Það gekk ekki hjá okkur, mér fannst sóknarleikurinn slappur hjá okkur í kvöld en vörnin var í lagi. Ég bjóst ekki við að koma hingað og bursta þá. Ég er ánægður með að við komum til baka í fjórða leikhluta og sýndum þeim að við gefumst aldrei upp. Það er aðalsmerki okkar liðs. Oddaleikurinn leggst rosalega vel í mig, ég held að það sé langt síðan það var svona góð stemmning í körfunni á Suðurlandi, ekki síðan Þór var í úrslitum. Þetta verður járn í járn og hrikalega spennandi leikur, þannig að ég skora á alla Sunnlendinga að mæta,“ sagði Lárus í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinFSu tryggði sér oddaleik
Næsta greinJafntefli á jafntefli ofan