Viðbrögð leikmanna: „Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu“

Collin Pryor og Julian Nelson voru mis hressir eftir leik Hamars og FSu í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Hamar sigraði 86-71.

Pryor náði sér ekki á strik með liði FSu í leiknum og hann sagði í samtali við sunnlenska.is að hann hafi átt von á hörðum slag í kvöld.

„Við vissum út í hvað við vorum að fara. Liðin hafa mæst í fjórum leikjum í vetur og þar hefur það alltaf verið sigurviljinn sem skiptir máli. Og þannig verður það í þessu einvígi, þetta snýst um það hvort liðið vill þetta meira. Við vitum hvað við getum og við munum mæta ákveðnir til leiks á sunnudaginn. Heimavöllurinn skiptir miklu máli og við höfum sýnt okkar rétta andlit í Iðu upp á síðkastið. Við spiluðum tvo frábæra leiki gegn Val þar í úrslitakeppninni, líklega bestu leiki liðsins hingað til. Við munum fara vel yfir málin fram að næsta leik, höfum þetta einfalt og vinnum út frá því,“ sagði Pryor.

Julian Nelson, besti leikmaður Hamars í kvöld, var kampakátur í leikslok.

„Liðið spilaði mjög vel, stóru strákarnir áttu fínan leik og við náðum að stöðva Ara sem er mjög mikilvægt. Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu, þjálfarinn lagði hann mjög vel upp og það var ekkert sem kom okkur á óvart hjá liði FSu. Ef við höldum svona áfram þá munum við fagna á sunnudaginn en ég á ekki von á öðru en að FSu láti okkur hafa fyrir hlutunum. Þeir eru með frábært lið og það er ástæða fyrir því að þeir eru í úrslitakeppninni. Stuðningsmennirnir okkar voru líka frábærir í kvöld og við þurftum á þeim að halda, þannig að kvöldið var frábært,“ sagði Nelson í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinHamar leit vel út á heimavelli
Næsta greinJafntefli í snjóbolta á Selfossi