Viðar skrifaði undir þriggja ára samning

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skrifaði í morgun undir þriggja ára samning við kínverska knattspyrnufélagið Jiangsu Guoxin-Sainty.

Viðar sló í gegn með Valerenga í Noregi á síðasta tímabili og varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar. Fjölmörg félög sýndu Viðari áhuga en Valerenga var ekki til í að leyfa Viðari að fara ódýrt.

,,Valerenga setti rosalega háan verðmiða á mig og þau lið sem höfðu mikinn áhuga frá Evrópu voru ekki tilbúin að kaupa leikmann á svona háu verði frá Noregi,“ sagði Viðar við Fótbolta.net í fyrradag.

,,Þegar kínverska liðið kom með hátt tilboð gat Valerenga ekki sagt nei við því. Ég var spurður hvort að ég hefði áhuga og ég tel að ég sé að fara í sterkari deild.“

,,Auðvitað er draumurinn að vera í ensku úrvalsdeildinni eða eitthvað svoleiðis en þegar þetta er það eina sem er raunverulegt þá er maður ánægður með það og þetta er spennandi áskorun,“ sagði Viðar.

Fyrri greinBrjóstahaldari á meðal sönnunargagna
Næsta greinPrjónahúfur með endurskinsþræði