Viðar Örn til Vålerenga (Staðfest)

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Vålerenga í Osló.

„Ég er ákaflega stoltur af þessu og í raun og veru í spennufalli,“ sagði Viðar í samtali við sunnlenska.is í kvöld. „Takmarkið hefur lengi verið að komast í atvinnumennskuna og það skrítið að nú sé loksins komið að þessu miðað við hvað ég þurfti að bíða lengi. Ég hélt að ég væri að fara að klúðra þessu. En Vålerenga er flottur klúbbur og þjálfarinn sýndi mér gríðarlegan áhuga og vill fá mig sem framherja númer eitt þannig að ég er mjög stoltur af þessum áfanga.“

Viðar er 23 ára gamall framherji og var einn af markahæstu leikmönnum Pepsi-deildar karla með Fylki í sumar. Hann var einn af eftirsóttustu leikmönnum deildarinnar að tímabilinu loknu en nokkur lið í Noregi höfðu áhuga á kappanum auk þess sem hann fór til reynslu til stórliðsins Glasgow Celtic í Skotlandi.

Áður en hann fór til Skotlands hafði hann dvalið í tíu daga í herbúðum Vålerenga og í kjölfarið sýndu Norðmennirnir mikinn áhuga á því að fá Viðar til liðs við sig. Samkvæmt norskum fjölmiðlum er kaupverðið á Viðari um nítján milljónir íslenskra króna.

Það verða því þrír uppaldir Selfyssingar í norsku úrvalsdeildinni á næsta ári en þar eru fyrir Jón Daði Böðvarsson hjá Viking og Guðmundur Þórarinsson hjá Sarpsborg 08. Auk þeirra er Selfyssingurinn Babacar Sarr á mála hjá Start.

Vålerenga varð í 11. sæti af sextán liðum í norsku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili.

Fyrri greinEnginn slasaðist þegar rúta fór útaf
Næsta greinGjaldskrá Arkar hækkar ekki