Viðar og Tumi sigruðu

Viðar Ingólfsson á Tuma frá Stóra-Hofi kom sá og sigrað töltkeppni Meistaradeildarinnar í Ölfushöllinni í gærkvöldi.

Þeir félagar stóðu efstir eftir forkeppni með einkunnina 7,80 og héldu fyrsta sætinu allt til enda með einkunnina 8,17.

Þetta er í annað sinn sem Viðar og Tumi sigra töltið í deildinni. Í öðru sæti urðu jafnir Sigursteinn Sumarliðason á Ölfu frá Blesastöðum 1A og Sigurður Sigurðarson á Jódísi frá Ferjubakka 3 með einkunnina 7,83. En Sigurður sigraði í B-úrslitunum í gærkvöldi.

Það var stútfullt út úr dyrum í Ölfushöllinni á meðan keppnin fór fram og voru áhorfendur vel með á nótunum og ekki feimnir við að láta í sér heyra þegar þeir voru ánægðir með það sem gerðist á vellinum.

Í einstaklingskeppninni stendur Sigurður Sigurðarson enn á toppnum með 28 stig. Hulda Gústafsdóttir er komin í annað sæti með 22 stig og Jakob S. Sigurðsson í það þriðja með 21 stig.

Mjótt er á munum í liðakeppninni en þar stendur enn á toppnum lið Lýsis með 121 stig, í annað sæti er komið lið Top Reiter/Ármóta/66°Norður með 119,5 stig og í því þriðja er lið Árbakka/Norður-Gatna með 109 stig.

Fyrri greinKristrún sjóðheit í stórsigri Hamars
Næsta greinEkið á hross á Landvegi