Viðar og Jón Daði valdir í A-landsliðið

Selfyssingarnir Viðar Örn Kjartansson og Jón Daði Böðvarsson hafa verið valdir í A-landslið Íslands í knattspyrnu sem mætir Tyrkjum á Laugardalsvelli í undankeppni EM þann 9. september.

Leikurinn er fyrsti leikur Íslands í undanriðlinum fyrir EM2016 og verður hann leikinn á Laugardalsvellinum. Viðar, sem er leikmaður Vålerenga og markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar, hefur áður leikið einn landsleik en Jón Daði, leikmaður Viking í Noregi, er með þrjá landsleiki á ferilskránni.

Svo getur reyndar farið að Jón Daði muni leika með U21 árs landsliðinu gegn Frökkum úti í Frakklandi þann 8. september en hann var einnig valinn í þann hóp, ásamt Selfyssingnum Guðmundi Þórarinssyni, leikmanni Sarpsborg í Noregi.

Þá hafa Selfyssingurinn Sindri Pálmason, leikmaður Esbjerg og Max Odin Eggertsson, leikmaður Selfoss, verið valdir í U19 ára landsliðið sem mætir Norður-Írum í tveimur vináttuleikjum í Belfast 3. og 5. september.

Fyrri greinFjalla Eyvindur í Gamla-bankanum á Selfossi
Næsta greinHamarsmenn fallnir