Viðar hættir ekki að skora

Selfyssingarnir Viðar Örn Kjartansson og Guðmundur Þórarinsson voru á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en lið þeirra, Vålerenga og Sarpsborg unnu góða sigra.

Viðar Örn lék á alls oddi þegar Haugasund kom í heimsókn á Ullevaal Stadion í Osló í dag. Viðar skoraði með tveggja mínútna millibili undir lok fyrri hálfleiks og tryggði Vålerenga 2-0 forskot í leikhléinu. Hann kórónaði síðan þrennuna á 72. mínútu leiksins og skoraði þá fjórða mark Vålerenga en lokatölur urðu 4-1.

Viðar er nú kominn með 24 mörk í 23 leikjum og er lang markahæstur í deildinni.

Guðmundur Þórarinsson skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu á 26. mínútu þegar Sarpsborg vann Sandnes Ulf 0-2 á útivelli. Guðmundi var svo skipt af velli í upphafi síðari hálfleiks eftir að hann hafði fengið högg á sig og þjálfaraliðið tók enga áhættu með miðjumanninn knáa, og kippti honum af velli.

Jón Daði Böðvarsson lék allan leikinn með Viking í gær þegar liðið tapaði 4-1 gegn Odd á útivelli.

Vålerenga er í 6. sæti deildarinnar með 36 stig, Viking hefur 32 stig í 7. sæti og Sarpsborg er í því 9. með 29 stig.

Fyrri greinAllir kláruðu gönguna áfallalaust
Næsta greinBílaleiga Selfoss endurnýjar hluta bílaflotans