„Við vorum ógeðslega stressaðar“

„Ég veit bara ekki hvað ég á að segja, þetta var ótrúlegt. Loksins, loksins tókst okkur þetta,“ sagði Þóra Margrét Ólafsdóttir, fyrirliði Selfoss, eftir leikinn gegn Keflavík.

„Við erum búnar að vera nálægt þessu í þrjú ár og í fyrra vorum við alveg á þröskuldinum en loksins hafðist það,“ sagði Þóra í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum ógeðslega stressaðar í byrjun leiks eins og sást á leiknum en svo bara negldum við þetta. Þetta var miklu auðveldara eftir að við skoruðum fyrsta markið, við fórum að spila boltanum og röðuðum inn mörkunum eftir það,“ sagði Þóra sem átti ekki von á þvílíkum yfirburðum Selfossliðsins.

„Ég átti aldrei von á því að við myndum rúlla svona yfir þær en við vorum allar góðar í dag og allar að berjast fyrir liðið.“

Selfoss mætir FH í úrslitaleik deildarinnar og Þóra á von á erfiðum leik. „Þær hafa rústað sínum leikjum í A-riðlinum en við förum auðvitað í leikinn til þess að vinna hann. Annars er markmiðinu náð. Við erum komnar í Pepsideildina.“