„Við vorum miklu betri”

Selfyssingar sigruðu Aftureldingu, 24-26, í lokaumferð N1-deildar karla í handbolta í kvöld. Bæði lið luku keppni með 10 stig, í 7. og 8. sæti deildarinnar.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik en staðan í leikhléinu var 9-14. Afturelding vann sig inn í leikinn þegar leið á seinni hálfleik en sigur Selfyssinga var ekki í hættu og tvö mörk skildu liðin að lokum.

„Við vorum miklu betri í þessum leik og komumst í 17-10. Þá kom bakslag í þetta hjá okkur enda vorum við að spila á meiddum mönnum og það var komin þreyta í mannskapinn. Þeir komu til baka undir lokin en þetta var aldrei í hættu. Birkir varði tvö dauðafæri á lokakaflanum og stóðst lokaprófið sem ég lagði upp fyrir hann í markvarðafræðunum,” sagði Sebastian Alexandersson, í samtali við sunnlenska.is eftir leik, en hann lætur nú af störfum sem þjálfari meistaraflokks.

Guðjón Drengsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Ragnar Jóhannsson skoraði 6, Helgi Héðinsson 5, Milan Ivancev 2 og þeir Hörður Bjarnarson, Matthías Halldórsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir 1 mark.

Sigurinn kemur Selfyssingum ekki upp fyrir Aftureldingu á stigatöflunni þar sem Mosfellingar hafa betur í innbyrðis viðureignum. Selfoss er fallið en Afturelding fer í umspil við lið úr 1. deild um að halda sæti sínu í deildinni.