„Við vorum heitari“

Selfoss vann topplið Aftureldingar í annað sinn í vetur í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Niðurstaðan í Vallaskóla varð sjö marka sigur, 32-25.

„Í fyrsta lagi vil ég segja að það var ótrúlega skemmtileg stemmning í stúkunni og það gerði mikið fyrir okkur. Áhorfendurnir lögðu grunninn að þessum sigri,“ sagði Helgi Hlynsson, markvörður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum heitari en Afturelding, alveg eins og í fyrsta leiknum. Fyrir utan fyrsta korterið þá vorum við bara skrefinu á undan og þeir náðu okkur ekki eftir það. Þó að við værum yfir þá hættu þeir aldrei en við gerðum það ekki heldur, heldur keyrðum á þá og höfðum trú á þessu allan tímann,“ sagði Helgi sem átti góðan leik í rammanum og varði 20/1 skot.

„Ég var ánægður með að geta klukkað bolta í dag. Mér finnst alltaf að ég geti gert betur en ég var með 40% markvörslu sem er mjög gott. Vörnin var líka að hjálpa mér mikið. Það er þægilegt að standa í markinu þegar vörnin er svona góð,“ sagði Helgi að lokum.

Afturelding byrjaði miklu betur og leiddi þegar sautján mínútur voru liðnar, 8-9. Þá hrukku Selfyssingar í gang, komust í 12-10 og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Staðan var 16-13 í hálfleik.

Heimamenn réðu lögum og lofum í seinni hálfleik ef frá er talinn stuttur kafli um miðjan hálfleikinn. Afturelding minnkaði þá muninn niður í tvö mörk en Selfyssingar héldu ró sinni og gáfu allt í botn á lokakaflanum.

Guðni Ingvarsson, Einar Sverrisson og Elvar Örn Jónsson skoruðu allir 7 mörk fyrir Selfoss. Sverrir Pálsson skoraði 3 og þeir Hergeir Grímsson, Alexander Egan, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu allir 2 mörk. Sverrir og Hrannar voru mjög góðir í vörninni og Hergeir og Teitur áttu frábært framlag í sókninni þó að þeir hafi ekki verið markahæstir.

Afturelding er áfram á toppnum með 16 stig en Selfoss er í 2. sæti með 12 stig eins og Valur.