„Við stefnum ennþá hærra“

Hilmar Guðlaugsson, sem í dag skrifaði undir þriggja ára þjálfarasamning hjá kvennaliði Selfoss í handbolta, segir verkefnið framundan mjög spennandi.

Hilmar hefur þjálfað hjá HK í Kópavogi undanfarin tíu ár, fyrst í yngri flokkum og svo sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna áður en hann tók við sem aðalþjálfari.

„Þetta var frábær tími hjá HK en nú vildu menn gera breytingar í Kópavoginum og þá nýtti ég tækifærið. Ég vildi vera áfram í meistaraflokksþjálfun og Selfyssingar höfðu samband og mér leist mjög vel á. Það eru mjög spennandi hlutir í gangi hér en það sem heillaði mig var að komast inn í akademíuna og fá að vinna í því góða starfi sem þar er í gangi,“ sagði Hilmar í samtali við sunnlenska.is.

Hann þekkir vel til Selfossliðsins enda hefur hann þjálfað nokkra leikmenn héðan í U19 ára landsliðinu. „Ég þekki vel til, sérstaklega kvennamegin, en svo sér maður líka alla þessa leikmenn karlamegin sem koma héðan frá Selfossi til Reykjavíkur. Það er mikil framleiðsla hér af góðum handboltamönnum.“

Hilmar mun þjálfa kvennaliðið ásamt Sebastian Alexanderssyni, sem hefur þjálfað liðið undanfarin ár. „Við Basti höfum talað mikið saman undanfarin ár og þekkjum vel til starfa hvors annars. Við erum bara mjög spenntir fyrir því að byrja að skipuleggja okkur fyrir næsta tímabil,“ segir Hilmar.

Hið unga Selfosslið hefur tekið miklum framförum á milli ára en Hilmar segir að langtímamarkmiðið sé að koma liðinu í topp fjóra á Íslandi.

„Þær eru búnar að bæta sig með hverju árinu og við stefnum ennþá hærra. Það gerum við með því að halda hópinn áfram og þurfum við að bæta inn leikmönnum til að auka breiddina. Það hafa vissulega verið meiðsli í hópnum og það þarf að fylla í þau skörð þangað til leikmenn koma til baka. Ef liðið ætlar sér stærri hluti þá þarf aðeins að styrkja það en fyrst og fremst ætlum við að nota þennan góða efnivið sem er til staðar nú þegar hérna á Selfossi.“

Fyrri greinÁlfurinn seldur um land allt fyrir SÁÁ
Næsta greinÁrni Þór þjálfar kvennalið Hamars