„Við rúlluðum þetta á forminu í lokin“

Mílan og Selfoss mættust í nágrannaslag í 1. deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Gestirnir frá Selfossi höfðu þar öruggan sigur, 16-26.

„Þetta var gott í 45 mínútur, lélegt í korter,“ sagði Gunnar Ingi Jónsson, fyrirliði Mílunnar og fyrrum fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við misstum dampinn og náðum ekki að leysa vörnina hjá þeim á síðasta korterinu og fengum hraðaupphlaup í bakið. Sóknin hjá okkur klikkaði í lokin,“ sagði Gunnar og bætti við að það væri svolítið skrítið að spila á móti Selfossi, verandi Selfyssingur að upplagi.

Birkir Fannar Bragason, markvörður Selfoss, tók undir þetta. Að það væri sérstakt að spila á móti vinum sínum í Mílunni. „Það er samt mjög skemmtilegt. Ég hefði viljað sjá meiri stemmningu í húsinu, það var fullt á pöllunum en fólk sat þar eins og þagði eins og það væri að horfa á bíómynd eða eitthvað,“ sagði Birkir.

„Þetta var þolinmæðisvinna fyrir okkur. Við vissum að þeir myndu spila hörku vörn og voru búnir að fá mjög fá mörk á sig. Við rúlluðum þetta á forminu í lokin,“ bætti Birkir við.

Hann átti mjög góðan leik í kvöld og viðurkenndi að það væri auðveldara að lesa í skotin hjá fyrrum samherjum sínum í Mílunni heldur en leikmönnum annarra liða í deildinni. „Ég tók klukkutíma í morgun að fara yfir vídeó. Það skiptir ekki máli hver mótherjinn er, ég er alltaf undirbúinn,“ sagði Birkir léttur að lokum.

Birkir Fannar ver ekki víti frá Gunnari Inga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Enginn er annars bróðir í leik
Leiksins hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en fyrir leik voru liðin með jafn mörg stig ásamt Fjölni í 2.-4. sæti deildarinnar. Leikmenn Mílunnar og Selfoss þekkjast vel enda nánast allir uppaldir hjá Selfyssingum. Það var þó ljóst strax á upphafsmínútum leiksins að enginn er annars bróðir í leik enda var fast tekist á og allur vinskapur lagður til hliðar á meðan á leik stóð.

Það var lítið skorað í upphafi leiks. Mílan komst í 2-0 en um miðjan fyrri hálfleikinn breyttu Selfyssingar stöðunni úr 4-3 í 4-6. Þá kom góður kafli hjá Mílunni og Gunnar Ingi Jónsson jafnaði 7-7 með glæsilegu marki á tuttugustu mínútu.

Selfyssingar settu þá aftur í gírinn og leiddu 9-11 í hálfleik. Munurinn hefði að ósekju mátt vera einu marki meiri, en Ástgeir Sigmarsson varði vítaskot frá Erni Þrastarsyni, leikmanni Selfoss og þjálfara Mílunnar, undir lokin.

Rautt á Atla
Líkt og í þeim fyrri byrjaði Mílan betur í seinni hálfleik. Hann var opnaður á sirkusmarki frá Atla Kristinssyni og Mílan jafnaði svo 11-11. Á 40. mínútu var staðan ennþá jöfn 13-13 en þá urðu Mílumenn full kærulausir í sókninni og Selfyssingar gengu auðveldlega á lagið með hraðaupphlaupsmörkum.

Gestirnir breyttu stöðunni úr 13-13 í 14-25 og þannig stóðu leikar þegar tvær mínútur voru eftir. Nánast vonlaust fyrir heimamenn að koma til baka eftir það og ekki bætti úr skák að markahrókurinn Atli Kristinsson hafði fengið sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald.

Þannig voru síðustu fimmtán mínútur leiksins örugg sigling heim fyrir Selfyssinga. Lokatölur 16-26.

Atli og Teitur markahæstir
Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 7 mörk, Ársæll Ársælsson skoraði 3, Gunnar Ingi Jónsson 2 og þeir Sævar Ingi Eiðsson, Gunnar Páll Júlíusson, Árni Felix Gíslason og Magnús Már Magnússon skoruðu allir 1 mark.

Ástgeir Sigmarsson varði 9/2 skot (31%) í marki Mílunnar og Stefán Ármann Þórðarson varði 1 (14%).

Hjá Selfyssingum var Teitur Örn Einarsson markahæstur með 8 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 4, Árni Geir Hilmarsson, Andri Már Magnússon og Hergeir Grímsson skoruðu allir 3, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2 og þeir Alexander Egan, Árni Guðmundsson og Egidijus Mikalonis skoruðu allir 1 mark.

Birkir Fannar Bragason átti mjög góðan leik í marki Selfoss og varði 15/1 (50%) skot og Helgi Hlynsson varði 3 skot undir lokin og var með 75% markvörslu.

Fyrri greinFSu áfram í Boxinu
Næsta greinHamarsmenn sterkir á heimavelli