„Við áttum alls ekki góðan dag“

Selfyssingar voru ekki svipur hjá sjón þegar þeir tóku á móti ÍBV í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. ÍBV sigraði 27-36.

„ÍBV liðið var bara á virkilega góðum degi á meðan við áttum alls ekki góðan dag. Við erum vanir að byrja af krafti en gerðum það ekki í kvöld og ÍBV stýrði leiknum frá A til Ö,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfossliðið lenti hreinlega á vegg í fyrri hálfleik. Eyjavörnin var frábær og Selfyssingum tókst aðeins að skora sex mörk úr opnu spili í fyrri hálfleik. Hin mörkin komu úr vítaköstum eða skotum yfir völlinn í markmannslaust mark ÍBV.

Gestirnir náðu mest tíu marka forskoti í fyrri hálfleik en staðan var 11-20 í leikhléi. ÍBV náði tólf marka forskoti snemma í seinni hálfleik og síðustu fimmtán mínútur leiksins voru einungis formsatriði að klára. Eyjamenn voru orðnir saddir og Selfyssingar spöruðu sig fyrir leikinn gegn Stjörnunni næsta fimmtudagskvöld.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 20 stig en ÍBV er í 2. sæti með 21 stig. Næsti andstæðingur Selfoss, Stjarnan, er í 8. sæti með 19 stig og þar á eftir koma Fram og Akureyri með 18 og 17 stig. Baráttan verður hörð á lokakaflanum.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 10/4 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 4, Guðni Ingvarsson, Sverri Pálsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Alexander Egan skoruðu allir 2 mörk og þeir Einar Sverrisson, Örn Þrastarson, Árni Geir Hilmarsson og Hergeir Grímsson skoruðu allir 1 mark. Það gerði líka markvörðurinn Einar Vilmundarson, en hann varði 4 skot að auki, eins og Helgi Hlynsson.