„Við ætlum að slátra þeim“

Reynir Björgvinsson, fyrirliði og markaskorari KFR, í fyrri úrslitaleiknum gegn KB sl. laugardag var svekktur með að ná aðeins jafntefli í leiknum.

Lokatölur voru 1-1 en Reynir kom KFR yfir í upphafi leiks.

„Mér fannst við vera miklu betri og áttum að fá meira út úr leiknum. Þetta var frekar erfiður leikur, völlurinn þungur og ég er persónulega alveg búinn,“ sagði Reynir í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

Reynir var felldur inni í vítateig í fyrri hálfleik án þess að KFR fengi vítaspyrnu og hann segir það hafa verið vendipunkt í leiknum. „Annars eru þetta bara tvö hörkufín lið í úrslitakeppni þar sem þetta getur dottið hvoru megin sem er. En við hödum bara áfram, það er hálfleikur núna og staðan 1-1,“ sagði Reynir sem er sannfærður um að KFR klári einvígið og tryggi sér sæti í 2. deild.

„Við ætlum að slátra þeim í seinni leiknum. Við höfum sýnt að það skiptir engu máli á hvaða velli við spilum. Við tókum Berserki sannfærandi á gervigrasinu þeirra og við munum endurtaka það í næsta leik. Það var frábær stemmning á vellinum í dag og ég veit að menn munu fjölmenna á útileikinn og klára þetta í sameiningu.“