Línumaðurinn og varnarjaxlinn Tinna Soffía Traustadóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára.
Tinna var einn af lykilmönnum Selfossliðsins í vetur, bæði varnar- og sóknarlega en hún tók skóna af hillunni fyrir tímabilið eftir sex ára fjarveru. Eins og allt Selfossliðið átti hún frábært tímabil og var á dögunum valin varnarmaður ársins í Grill-66 deildinni á lokahófi HSÍ.
Í samtali við sunnlenska.is sagðist Tinna Soffía vera ótrúlega spennt fyrir því að taka slaginn á nýjan leik í deild þeirra bestu.
„Liðið okkar lítur vel út, við erum að ná leikmönnum heim á Selfoss og ég sé fram á að við verðum vel samkeppnishæfar í Olísdeildinni. Það eru auðvitað bara forréttindi að fá tækifæri til að taka aftur þátt í uppbyggingu kvennahandboltans hér á Selfossi,“ segir Tinna, sem þurfti á sínum tíma að hætta handboltaiðkun vegna höfuðmeiðsla.
„Hvað varðar meiðslin, þá gekk mjög vel að spila í vetur og ég fann ekki fyrir neinu. Ég vona að það haldi áfram þannig og ég geti spilað sem mest næsta vetur,“ sagði Tinna ennfremur.