„Verðum vel samkeppnishæfar í Olísdeildinni“

Tinna Soffía Traustadóttir á heimavelli í Set-höllinni á Selfossi. Ljósmynd: UMFS/Árni Þór Grétarsson

Línumaðurinn og varnarjaxlinn Tinna Soffía Traustadóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára.

Tinna var einn af lykilmönnum Selfossliðsins í vetur, bæði varnar- og sóknarlega en hún tók skóna af hillunni fyrir tímabilið eftir sex ára fjarveru. Eins og allt Selfossliðið átti hún frábært tímabil og var á dögunum valin varnarmaður ársins í Grill-66 deildinni á lokahófi HSÍ.

Í samtali við sunnlenska.is sagðist Tinna Soffía vera ótrúlega spennt fyrir því að taka slaginn á nýjan leik í deild þeirra bestu.

„Liðið okkar lítur vel út, við erum að ná leikmönnum heim á Selfoss og ég sé fram á að við verðum vel samkeppnishæfar í Olísdeildinni. Það eru auðvitað bara forréttindi að fá tækifæri til að taka aftur þátt í uppbyggingu kvennahandboltans hér á Selfossi,“ segir Tinna, sem þurfti á sínum tíma að hætta handboltaiðkun vegna höfuðmeiðsla.

„Hvað varðar meiðslin, þá gekk mjög vel að spila í vetur og ég fann ekki fyrir neinu. Ég vona að það haldi áfram þannig og ég geti spilað sem mest næsta vetur,“ sagði Tinna ennfremur.

Fyrri greinSegja viðsnúning nýja meirihlutans með hreinum ólíkindum
Næsta greinGul viðvörun á fimmtudag