„Verðum mun ofar en 6. sæti“

Emma Hrönn skoraði 19 stig og tók 5 fráköst. Ljósmynd/Hamar-Þór

Formenn, þjálfarar og fyrirliðar liðanna í 1. deild kvenna í körfubolta spá Hamri-Þór 6. sætinu í deildinni.

Spáin var opinberuð á kynningarfundi kvennadeildanna í gær. Ármenningum er spáð sigri í deildinni, þær hlutu 150 stig í spánni en Hamar-Þór er með 74 stig í 6. sæti.

„Við erum með okkar markmið og þau markmið ganga út á að sanna fyrir liðunum í deildinni að við verðum mun ofar en 6. sæti,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars-Þórs, í samtali við sunnlenska.is.

Hallgrímur er bjartsýnn á góðan körfuboltavetur en Hamar-Þór hefur styrkt leikmannahópinn frá síðasta tímabili.

„Kjarninn er svipaður og í fyrra en við höfum stækkað hópinn og fengið til okkar Emmu Hrönn og Stefaníu Ósk frá Fjölni og Ragnhildi Örnu úr KR. Einnig er Jenna Mastellone komin til okkar og lofar góðu,“ sagði Hallgrímur ennfremur.

Keppni í 1. deild kvenna í körfubolta hefst í næstu viku og fyrsti leikur Hamars/Þórs er á heimavelli gegn Stjörnunni laugardaginn 24. september.

Spá félaganna í 1. deild kvenna:
1. Ármann 150 stig
2. KR 115 stig
3. Stjarnan 115 stig
4. Þór Ak 92 stig
5. Aþena 92 stig
6. Hamar-Þór 74 stig
7. Snæfell 50 stig
8. Tindastóll 49 stig
9. Breiðablik-B 28 stig

Fyrri greinFjarlægðu sprengjurusl við Sunnulækjarskóla
Næsta greinUnnur og Kristrún framlengja á Selfossi