„Verð að hrósa mínu liði“

Hergeir Grímsson skoraði 11/3 mörk fyrir Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar lyftu sér upp í 4. sætið í Olísdeild karla í handbolta með 36-34 sigri á KA í stórskemmtilegum leik í Hleðsluhöllinni í kvöld.

„Þetta var skemmtilegur leikur og mikið „passion“ í þessu. Við vissum það fyrirfram að þetta yrði erfitt verkefni og við vorum aðeins lemstraðir eftir erfitt leikjaprógramm að undanförnu. En ég verð að hrósa mínu liði hvernig þeir leystu verkefnið og tóku tvö góð stig á móti góðu KA liði, það er gríðarlega vel gert,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Miklar sveiflur á báða bóga
Leikurinn var hraður og kaflaskiptur, mikið af mörkum og mikið af mistökum. Selfoss byrjaði betur og náði þriggja marka forskoti í upphafi leiks. KA menn svöruðu hins vegar með góðu áhlaupi um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 19-19 í leikhléi.

Það var allt í járnum í upphafi seinni hálfleiks en þá fóru hlutirnir að ganga betur hjá Íslandsmeisturunum, sem náðu fimm marka forskoti. Staðan var 30-25 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá tóku KA menn leikhlé og endurskipulögðu varnarleikinn. Gestirnir minnkuðu muninn í eitt mark á lokamínútunni en Selfoss stóðst áhlaupið og vann að lokum tveggja marka sigur.

Hergeir, Haukur og Árni Steinn í sérflokki
Hergeir Grímsson, Haukur Þrastarson og Árni Steinn Steinþórsson voru frábærir í leiknum í kvöld. Hergeir var markahæstur með 11/3 mörk og var sömuleiðis fremsti varnarmaður liðsins með fimm brotin fríköst. Árni Steinn skoraði 9 mörk og Haukur 9/1, auk þess sem hann sendi 9 stoðsendingar. Þar á eftir komu Atli Ævar Ingólfsson og Nökkvi Dan Elliðason með 3 mörk og Guðjón Baldur Ómarsson með 1.

Sölvi Ólafsson varði 11/1 skot í marki Selfoss og Einar Baldvin Baldvinsson varði 3/1 skot.

Fyrri greinStúkan skreytt með sögulegum ljósmyndum
Næsta greinSkuggamyndir frá Býsans í Skyrgerðinni