„Verðum að mæta og berjast með hjartanu“

Hamar heldur í vonina um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta en liðið vann góðan sigur á Breiðabliki í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld, 103-95. Blikar leiða 2-1 í einvíginu.

„Fyrri hálfleikur var ekki glæsilegur. Þeir voru að fara illa með okkur í fráköstum og öðru og Chris Woods var að drepa okkur. Við breyttum aðeins um taktík í hálfleik og það tók okkur smá tíma að komast inn í leikinn í seinni hálfleik en þegar það var komið þá var þetta öruggt fannst mér,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta eru bara jöfn lið. Við hefðum getað verið að tryggja okkur upp í kvöld, en við erum 2-1 undir, og við hefðum líka alveg getað tapað hérna í kvöld. Eitt, tvö víti til eða frá, það munar ekkert meira en það. Næsti leikur verður svona líka. Þeir eru með yfirhöndina, leikurinn á föstudaginn er á þeirra heimavelli en við verðum að mæta og berjast með hjartanu og þá er ýmislegt hægt,“ bætti Pétur við.

Stuðningsmenn Blika hafa farið mikinn í stúkunni hingað til og í kvöld fór mun minna fyrir stuðningsmönnum Hamars, þó að þeir væru á heimavelli. Vill Pétur ekki betra framlag úr stúkunni?

„Helst… en mér sýnist reyndar flest allir vera hérna,“ sagði Pétur léttur að lokum.

Leikur fjögur í einvíginu verður í Kópavogi næstkomandi föstudagskvöld og þar þarf Hamar sigur til þess að tryggja sér oddaleik í Hveragerði á mánudagskvöld.

Gömlu félagarnir skotnir í kaf
Hamarsmenn litu ekki vel út í fyrri hálfleik og þeirra gamli félagi, Chris Woods, skaut þá gjörsamlega í kaf. Hann skoraði 26 stig í fyrri hálfleik og tók tíu fráköst, þar af átta varnarfráköst. Staðan í hálfleik var 45-52 en Breiðablik náði mest sextán stiga forskoti, 51-67, þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Hamar svaraði hins vegar með sex þriggja stiga sóknum í röð en Larry Thomas lokaði 3. leikhluta á þremur þristum í röð og skyndilega var staðan orðin 73-75. Hamar hafði svo frumkvæðið allan 4. leikhluta á meðan Blikar voru ískaldir. Torsóttur sigur en öruggur að lokum, 103-95.

Thomas maður leiksins
Larry Thomas var bestur í liði Hamars í kvöld, og stigahæstur með 28 stig. Hann raðaði niður stigunum undir lok 3. leikhluta og skaut Hamri af alvöru inn í leikinn.

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 28/5 fráköst, Julian Nelson 27, Smári Hrafnsson 10, Jón Arnór Sverrisson 9/7 stoðsendingar, Þorgeir Freyr Gíslason 7/5 fráköst, Dovydas Strasunskas 6/4 fráköst, Arnór Ingi Ingvason 5, Kristinn Ólafsson 4/6 fráköst, Oddur Ólafsson 4/5 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 3.


Pétur fer yfir stöðu mála með Ísaki Erni Kristinssyni, dómara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinLögreglan rannsakar innbrot í sundlaugargarðinn á Selfossi
Næsta greinÁrni leiðir Flóalistann áfram