Verðskuldaður sigur Selfoss

Selfyssingar unnu verðskuldaðan 0-2 sigur á Fylki í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Selfyssingar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og Erna Guðjónsdóttir kom þeim yfir strax á 5. mínútu leiksins. Celeste Boureille gerði vel í undirbúningnum og renndi boltanum á Ernu sem átti gott skot frá vítateigslínunni í netið.

Selfoss hafði undirtökin á miðjunni allan fyrri hálfleikinn og vörðust vel þannig að Fylkir fékk ekki eitt einasta færi í fyrri hálfleik.

Á 16. mínútu var Dagný Brynjarsdóttir nálægt því að skora þegar hún slapp skyndilega ein í gegn vinstra megin en Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Fylkis, varði vel frá henni. Selfyssingar hefðu getað bætt við fleiri mörkum í fyrri hálfleik en Dagný fékk meðal annars tvö ágæt færi til viðbótar.

Staðan var 0-1 í hálfleik en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks kom Dagný Selfyssingum í 0-2. Fylkismönnum mistókst að hreinsa frá marki og Erna sendi boltann til hliðar á Dagnýju sem skoraði með góðu skoti utarlega úr teignum.

Skömmu síðar fékk Guðmunda Brynja Óladóttir dauðafæri á markteignum eftir góðan undirbúning Selfyssinga og á 54. mínútu fór boltinn í stöngina á Fylkismarkinu eftir hamagang í teignum uppúr aukaspyrnu frá Thelmu Björk Einarsdóttur.

Mínútu síðar fékk Fylkir sitt fyrsta almennilega færi þegar Hulda Hrund Arnarsdóttir slapp í gegn en Alexa Gaul varði vel í tvígang frá henni.

Erna Guðjónsdóttir átti skot rétt framhjá Fylkismarkinu á 58. mínútu og einni mínútu síðar slapp Dagný inn á vítateig Fylkis en Íris gerði vel í að verja frá henni.

Fylkisliðið fékk aukaspyrnu á hættulegum stað á 67. mínútu en Alexa Gaul þurfti ekki að hafa mikið fyrir að blaka boltanum yfir markið. Það var öllu meiri hætta inni í vítateig Fylkis þremur mínútum síðar eftir frábæra sókn Selfyssinga en Dagný rétt missti af boltanum í markteignum.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins voru tíðindalitlar og Selfyssingar stýrðu leiknum örugglega til leiksloka. Fylkismenn misstu Evu Abrahamsdóttur af velli á 79. mínútu þegar hún fékk sitt annað gula spjald og eftirleikurinn var þeim mun auðveldari fyrir Selfyssinga.

Selfoss hefur nú tólf stig í 6. sæti deildarinnar en pakkinn er mjög þéttur á efri hluta stigatöflunnar þannig að Selfoss er aðeins einu stigi á eftir Breiðabliki sem er í 2. sætinu.

Fyrri grein1,5 milljón í verkefni á Suðurlandi
Næsta greinSnorri Þór sigraði á Egilsstöðum