Selfoss tók á móti toppliði Hauka í 1. deild karla í körfubolta í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld. Eftir æsispennandi leik höfðu Haukar nauman sigur, 78-81.
Selfoss leiddi allan 1. leikhluta og fram í upphaf 2. leikhluta þegar Haukar skoruðu níu stig í röð og breyttu stöðunni í 22-25. Leikurinn var í járnum eftir það en Haukar voru yfir í hálfleik, 37-42.
Seinni hálfleikurinn var hnífjafn, liðin skiptust á um að hafa forystuna en síðustu þrjár mínútur leiksins fór sóknarleikur Selfoss að hökta og Haukarnir tryggðu sér sigur.
Steven Lyles var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig og 8 fráköst.
Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 4 stig en Haukar eru á toppnum með 8 stig.
Selfoss-Haukar 78-81 (19-16, 18-26, 16-17, 25-22)
Tölfræði Selfoss: Steven Lyles 21/8 fráköst, Kristijan Vladovic 17/7 fráköst/7 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 8/9 fráköst, Fjölnir Morthens 8/4 fráköst, Tristan Máni Morthens 7, Collin Pryor 7/9 fráköst, Pétur Hartmann Jóhannsson 5, Birkir Máni Sigurðarson 3, Fróði Larsen Bentsson 2.

