Vel heppnuð klappstýrusýning

Klappstýruhópur Umf. Kötlu í Vík héldu vel heppnaða jólasýningu í síðustu viku í íþróttahúsinu í Vík.

Við þetta tilefni frumsýndu stelpurnar splunkunýja búninga liðsins sem þær hafa verið að safna fyrir undanfarið ár m.a. með sölu á “buffi” merktu Vík í Mýrdal. Einnig hafa þær verið að selja gellur og eru enn að.

Skemmst er frá því að segja að stelpurnar sýndu frábæra takta og eru að sýna gríðarlegar framfarir, enda mikil gleði í þessum 15 stelpna hópi. Í lok sýningar völdu þær svo “heiðursklappstýru” liðsins sem að þessu sinni var Kolbrún Ósk Guðjónsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskólans, og er hún vel að titlinum komin. Hún tók við titlinum af Sif Hauksdóttur, kennara, sem var fyrsta “heiðursklappstýra” hópsins.

Klappstýrurnar enduðu svo á því að syngja fyrir gesti sína “Snjókorn falla” undir gítarspili Kristins Jóhanns Níelssonar tónskólastjóra.

Þjálfari klappstýruliðsins í Vík er Harpa Jónsdóttir en hún segir að upphafið megi rekja til dóttur sinnar, Þórhildar Steinunnar. “Hún hefur haft áhuga á þessu frá því hún var pínulítil. Hún fékk klappstýrubúning frá Kansas þegar hún var sjö ára, átti hann og elskaði þangað til hann nánast sprakk utan af henni,” segir Harpa en þjálfun klappstýranna hófst síðla árs 2009 og hafði Harpa þá aðstoðarþjálfara, Magdalenu Katrínu Sveinsdóttur frjálsíþróttastelpu, sem nú er komin til frekari menntunar að Laugarvatni og fjarri góðu gamni.

Tekið af www.vik.is