
Í desember buðu jöklaleiðsögumenn Arctic Adventures skólabörnum og kennurum í Kirkjubæjarskóla á Síðu upp á klifurnámskeið í íþróttahúsinu á Kirkjubæjarklaustri. Þar fengu þátttakendur tækifæri til að spreyta sig í klifri í öruggu umhverfi og undir öruggri leiðsögn færasta fagfólks í klifurgreininni.
Góð þátttaka var á námskeiðinu og mætti nánast allur skólinn til að taka þátt. Jöklaleiðsögumennirnir Maksym, Lucy og Ivo voru leiðbeinendur og vakti kennslan mikla ánægju hjá kennurum og nemendum. Markmiðið er að klifuríþróttin verði ein af þeim íþróttagreinum sem Ungmennafélagið ÁS bjóði uppá á vormánuðum í samstarfi við Kirkjubæjarskóla. Kirkjubæjarbæjarskóli og Arctic Adventures eiga nú í samtali um mögulegar úrbætur á aðstöðu í íþróttahúsi skólans þannig að það henti betur fyrir klifurkennslu og æfingar.

Klifurveggurinn öðlast nýtt líf
„Verkefnið heppnaðist alveg ótrúlega vel og hefur klifurveggurinn okkar öðlast nýtt líf eftir námskeiðið,” segir Stefán Guðjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og forstöðumaður íþróttamannvirkja Skaftárhrepps.
„Það er virkilega gaman að sjá hve mikinn áhuga krakkarnir sýna klifrinu og því erum við ásamt Ungmennafélaginu ÁS byrjuð að skoða möguleikann á að gera klifur að föstum lið í íþróttastarfi á svæðinu og bæta því við þá flóru íþrótta sem börnum stendur til boða,“ bætir Stefán við og segist jafnframt þakklátur Arctic Adventures, Olu, Iwan og Maksym fyrir frábært framtak.
Stefán segir klifur hafa margvísleg jákvæð áhrif á bæði líkama og sál. Íþróttin styrki vöðva og bein ásamt því að bæta jafnvægi og einbeitingu. Stór hluti klifurs snýr einnig að því að leysa vandamál, finna bestu leiðina og aðlagast aðstæðum. „Til eru rannsóknir sem sýna fram á að klifur geti aukið sjálfsöryggi og sjálfstraust enda keppa iðkendur fyrst og fremst við sjálfa sig,“ segir Stefán.

Styrkir tengsl skólans og nærsamfélagsins
Elísabet Gunnarsdóttir, skólastjóri Kirkjubæjarskóla, segir að klifrið geti orðið kærkomin viðbót við það góða íþróttastarf og kennslu sem fram fer í skólanum.
„Ungmennafélagið ÁS átti frumkvæði að námskeiðinu og því var strax vel tekið. Klifur nýtur aukinna vinsælda hér á landi og það er ómetanlegt fyrir okkur að hafa aðgang að framúrskarandi fagfólki í þeirri grein hér á svæðinu. Þetta styrkir tengsl skólans og nærsamfélagsins og gerir íþróttakennslu fjölbreyttari fyrir nemendur,” segir Elísabet.
