Vel heppnaður frjálsíþróttaskóli

Fimmtán þátttakendur mættu í frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem haldinn var á Selfossi dagana 20. til 24. júní sl. en skóli þessi er starfræktur á fjórum stöðum á landinu.

Tveir þjálfarar komu að skólanum Ólafur Guðmundsson, skólastjóri, og Fjóla Signý Hannesdóttir.

Sex frjálsíþróttaæfingar voru á dagskránni og eitt mót sem var nokkurskonar lokapunkturinn á skólanum, en þar fengu þátttakendur að reyna sig og um leið nýta sér það sem þeir höfðu lært í skólanum.

“Markmið skólans er að kynna sem flestar greinar frjálsíþrótta fyrir krökkunum, jafnvel með frekari þátttöku í huga og þær áætlanir stóðust svo að markmiðinu var fyllilega náð,” sagði Ólafur í samtali við sunnlenska.is.

Farið var m.a. í grindahlaup og stört, langstökk, þrístökk, hástökk, kringlukast, kúluvarp, spjótkast og sleggjukast að ógleymdu stangarstökkinu sem sló rækilega í gegn og höfðu krakkarnir á orði að þau vildu helst vera í stangarstökki á öllum æfingunum.

Auk þess að æfa voru ýmsir viðburðir til að hrista hópinn saman. Má þar nefna skoðunarferð, spurningakeppni og spilakvöld, videósýningu, áhorf á Héraðsmót HSK í frjálsum og fótboltaleik í 1. deild karla að ógleymdri myndasýningu af þátttakendum á æfingum í frjálsíþróttaskólanum. Mældust þessir viðburðir mjög vel fyrir.

Gist var í Selinu við íþróttavöllinn á Selfossi þar sem framreiddur var morgunmatur ásamt miðdegis- og kvöldhressingu af Maríu Óladóttur. Hádegis og kvöldverðir voru snæddir á Pizza Islandia Selfossi þar sem í boði var súpa, pasta, brauð, salad og pizzur.

Þátttakendur komu aðallega frá Selfossi, tólf talsins, einn frá Laugarvatni, einn úr Þingvallasveitinni og einn frá Hólmavík.

“Ég tel svona skóla góðan vettvang til að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi sem jafnvel verður til þessa að þátttakendur fara að æfa frjálsar í framhaldi og draga fleiri með sér. Þátttakendur voru heldur færri í ár en í fyrra. Þeir voru 24 í fyrra en fimmtán í ár. Þetta er þó annar fjölmennasti frjálsíþróttaskólinn á Suðurlandi ég vona að framhald verði á,” sagði Ólafur ennfremur.

Fyrri greinFræðslusýning í Skaftárstofu
Næsta greinLakavegur illfær vegna vatnselgs