„Veit ekki hvaða púki þetta var“

Björn Kristinn Björnsson, skrifaði í hádeginu undir þjálfarasamning við kvennalið Selfoss í knattspyrnu. Hann segir verkefnið spennandi.

„Ég hafði hugsað mér að taka mér frí frá þjálfun þangað til Selfyssingarnir höfðu samband. Þetta er smá áskorun, Helena var hér fyrir og skilaði frábæru starfi og einhverra hluta vegna þá fannst mér þetta spennandi. Ég tók þetta fram yfir önnur verkefni sem voru í boði. Ég veit ekki hvaða púki þetta var sem sagði mér að þetta yrði gaman,“ sagði Björn í samtali við sunnlenska.is eftir undirskriftina.

Kvennalið Selfoss náði sínum besta árangri frá upphafi í sumar og var hársbreidd frá sæti í efstu deild. „Ég þekki sáralítið til liðsins þó að ég hafi auðvitað fylgst með gengi þeirra í sumar. Þetta voru sterk lið sem voru í úrslitakeppninni í 1. deildinni og það er grátlegt að Selfoss komst ekki upp,“ segir Björn og lýsir því strax yfir að markmiðið sé að fara upp með liðið á næsta ári.

„Það verður alls ekki auðvelt. Það er hægt að finna mörg dæmi um það að lið sem eru við það að fara upp eigi ótrúlega erfitt næsta ár. Menn telja það sjálfsagðan hlut að fara bara upp á næsta ári en það er ekki þannig. Þröskuldurinn hækkar nefnilega á milli ára. Það þarf enginn að segja mér annað en að Helena ætli sér upp með sitt lið og Porcha með Haukana sem og HK og Keflavík. En auðvitað er stefnan sett á að fara upp.“

Björn Kristinn hefur þjálfað úrvalsdeildarlið Fylkis undanfarin ár og var þar á undan aðstoðarþjálfari hjá Breiðablik. „Það er orðið langt síðan ég var í 1. deildinni en ég held að ég hafi gott af því að fá svolitla ögrun. Selfyssingarnir voru fljótir að sannfæra mig, þetta voru þvílíkar lýsingar hjá þeim. Ég held meira að segja að það sé inni í samningnum núna að aksturinn á milli sé talinn sem bónus. Þeir segja að þetta sé svo gott,“ segir Björn á léttu nótunum.

„En aðstaðan er fín hérna og það sem ég hef séð af fólkinu er ekkert annað en frábært og hér er mikill metnaður. Þetta verður samt öðruvísi fyrir mig, því er ekki að neita. Dómgæslan í 1. deildinni er t.d. lakari og það er eflaust ýmislegt sem maður á eftir að láta fara í taugarnar á sér,“ sagði Björn að lokum.