Veisla í 4. deildinni í kvöld

Aron Fannar Birgisson sækir að marki KB í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á veisluhlaðborð í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem sunnlensku liðin bættu öll stigum í sarpinn.

Árborg þurfti að hafa fyrir 3-1 sigri á KB á Selfossvelli. Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik, Aron Fannar Birgisson skoraði tvívegis og Andrés Karl Guðjónsson eitt mark og staðan var 3-0 í hálfleik. Leikurinn snerist heldur betur í seinni hálfleiknum þar sem KB sótti mun meira. Þeir minnkuðu muninn á 54. mínútu en liðunum tókst að bæta við marki eftir það, þrátt fyrir mjög góðar sóknir beggja liða.

Atli Þór Jónasson tók að sér að ganga frá Álafossi sem voru í heimsókn hjá Hamri á Grýluvelli. Atli skoraði þrennu á þrettán mínútna kafla í fyrri hálfleik og á eftir fylgdu mörk frá Ísak Leó Guðmundssyni og Örvari Þór Sveinssyni. Staðan var 5-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til á lokamínútunni að Atli Þór skoraði sitt fjórða mark. Lokatölur 6-0.

Það voru magnaðar sveiflur í leik Álftaness og Uppsveita á Álftanesi. Heimamenn komust yfir snemma leiks en Aron Freyr Margeirsson jafnaði metin á 22. mínútu. Álftanes skoraði tvö mörk með þriggja mínútna millibili seint í fyrri hálfleik en George Razvan minnkaði muninn í 3-2 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Ekki batnaði staðan þegar Rasvan fékk rauða spjaldið á 52. mínútu fyrir að slá til mótherja. Uppsveitamenn létu liðsmuninn ekki á sig fá og á 59. mínútu jafnaði Aron Freyr metin. Rúmum tíu mínútum fyrir leikslok fengu Uppsveitir svo vítaspyrnu og úr henni skoraði Francisco Vañó sigurmarkið. Uppsveitir vörðust eins og ljón á lokakaflanum og fögnuðu sjötta sigrinum í röð, 3-4.

Þá heimsótti KFR GG til Grindavíkur. Heimamenn komust yfir á 8. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik. Bjarni Þorvaldsson jafnaði fyrir KFR á 58. mínútu en GG komst aftur yfir fimm mínútum síðar. Lokakaflinn var dramatískur en Rangæingar fengu vítaspyrnu tveimur mínútum fyrir leikslok og úr henni jafnaði Helgi Valur Smárason. Lokatölur 2-2.

Í D-riðlinum er spennan mikil en Hamar er nú á toppnum með 14 stig og KFR er í 4. sæti með 10 stig. Í C-riðlinum eru Uppsveitir með fullt hús, 18 stig í toppsætinu og Árborg í 2. sæti með 15 stig.

Atli Þór Jónasson skoraði fjögur mörk í kvöld og er markahæstur í D-riðlinum með 10 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÆgismönnum skellt niður á jörðina
Næsta greinTónlistarmessa í Strandarkirkju á sunnudag