Veigar Þór Íslandsmeistari í fimmtarþraut

Veigar Þór og Oliver Jan á verðlaunapalli ásamt Þorsteini Péturssyni, Ármanni, sem varð í 3. sæti. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson

Veigar Þór Víðisson, Garpi/Heklu, varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.

Veigar Þór hlaut 2.482 stig en annar varð Oliver Jan Tomczyk, Umf. Selfoss, með 2.414 stig. Veigar Þór hafði ágætt forskot á Oliver fyrir lokagreinina, sem var 800 m hlaup. Þar sigraði Oliver örugglega en Veigar Þór kom annar í mark og tryggði sér þar með sigurinn í þrautinni.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, sem er á þrettánda ári varð í 6. sæti í fimmtarþrautinni en hann setti tvö HSK-met í keppninni. Hjálmar hljóp 60 m grindahlaup á 84 cm grindur á 11,71 sek sem er héraðsmet í hans aldursflokki og einnig setti hann héraðsmet í fimmtarþraut í flokki 13 ára, hlaut 1.366 stig.

Í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri varð Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, í þriðja sæti með 2.445 stig.

Fjöldi keppenda frá aðildarfélögum HSK tóku þátt í mótinu og náðu margir góðum árangri og bætingum í einstökum greinum.

Ísold Assa Guðmundsdóttir vann bronsverðlaun í flokki 15 ára og yngri. Með henni á palli voru Ísold Sævarsdóttir, FH, og Hekla Magnúsdóttir, Ármanni. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir
Keppendur Heklu/Garps á mótinu um helgina, ásamt Ástþóri Jóni, þjálfara. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSvart og hvítt í fyrri og seinni hálfleik
Næsta greinNý stjórn hjá Miðflokksfélagi Suðurkjördæmis