Veigar Þór Íslandsmeistari í fimmtarþraut

Veigar Þór og Daníel Breki á verðlaunapalli ásamt Kára Ófeigssyni. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson

Veigar Þór Víðisson, Garpi/Heklu, varð um helgina Íslandsmeistari í fimmtarþraut í flokki 15 ára og yngri. Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram á Kópavogsvelli um helgina.

Veigar Þór hlaut 2.484 stig en annar varð Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, með 2.110 stig. Daníel Breki var með forystuna þegar komið var að kringlukastinu en þar náði hann ekki gildu kasti og fékk engin stig fyrir greinina og þar má segja að úrslitin hafi ráðist. Veigar Þór er þar með ríkjandi Íslandsmeistari í fimmtarþraut, bæði utan- og innanhúss, sem verður að teljast gott veganesti fyrir hann þegar hann hefur keppni í tugþraut á næsta ári.

Í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri varð Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, í 3. sæti með 3.293 stig, skammt á undan Álfrúnu Diljá Kristínardóttur, Umf. Selfoss, sem varð fjórða með 3.083 stig.

Á þessu sama móti var einnig haldið Meistaramót Íslands í 10.000 m hlaupi og þar varð hinn 17 ára gamli Goði Gnýr Guðjónsson, Garpi/Heklu, í 3. sæti í fullorðinsflokki. Þrátt fyri kulda og bleytu í Kópavoginum hljóp Goði Gnýr á fínum tíma; 39:42,75 mín.

Þess má svo einnig geta að Dagur Fannar Einarsson frá Urriðafossi varð um helgina Íslandsmeistari í tugþraut 18-19 ára pilta en hann keppir fyrir ÍR.

Álfrún Diljá og Ísold Assa. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Goði Gnýr á verðlaunapalli ásamt Arnari Péturssyni og Þórólfi Þórssyni. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson
Fyrri greinAllt í sómanum í Veiðivötnum
Næsta greinTveir kærðir fyrir símanotkun – báðir neita sök