Veigar og Dagur með þrjú gull

Dagur Fannar Einarsson í langstökki. Ljósmynd/Aðsend

Garpur/Hekla hélt annað frjálsíþróttamótið í sumar á sínum heimavelli, íþróttavellinum á Hellu, síðastliðið miðvikudagskvöld. Ellefu keppendur tóku þátt og náðu góðum árangri í fínum aðstæðum, sól og lítilsháttar vindi.

Veigar Þór Víðisson, Garpi/Heklu, sigraði í hástökki karla með stökk upp á 1,70 m. Veigar átti síðan góðar tilraunir við 1,76 m sem hefði verið bæting, en hann á 1,75 m frá því fyrr í sumar. Veigar Þór sigraði einnig í kúluvarpi 15 ára pilta, kastaði 12,19 m og í kringlukasti 15 ára pilta, með kast upp á 31,00 m.

Dagur Fannar Einarsson, ÍR, sigraði einnig í þremur greinum í karlaflokki. Hann stökk 6,18 m í langstökki, kastaði kúlunni 11,06 m og kringlunni 33,93 m.

Þá sigraði Tanja Margrét Fortes, Garpi/Heklu, í hástökki kvenna, stökk 1,20 m.

„Það er markmið okkar að skapa íþróttamönnum Garps/Heklu aðstæður til þess að vera á hæsta leveli. Öflug og tíð mót eru einn liður í því,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, yfirþjálfari hjá Garpi/Heklu, en öll nánari úrslit frá mótinu má sjá á heimasíðu FRÍ.

Veigar Þór Víðisson í hástökkskeppninni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÆgismenn öflugir á heimavelli
Næsta greinVerktakinn þarf á kraftaverki að halda