Védís Huld valin íþróttamaður Ölfuss 2018

Védís Huld Sigurðardóttir. Ljósmynd/olfus.is

Hestaíþróttakonan Védís Huld Sigurðardóttir var valin íþróttamaður Ölfuss 2018. Kjörinu var lýst þann 30. desember síðastliðinn.

Védís Huld náði frábærum árangri á árinu bæði innan lands og utan. Hún var valin í landslið Íslands fyrir Norðurlandamót í hestaíþróttum sem haldið var í Svíþjóð þar sem hún náði þeim einstaka árangri að verða fimmfaldur Norðurlandameistari.

Hún varð Norðurlandameistari í fimmgangi, 250 m skeiði, 100 m skeiði og gæðingaskeiði og þar með varð hún einnig Norðurlandameistari í samanlögðum greinum. Á mótinu verðlaunuðu dómarar mótsins tvo knapa sem sköruðu framúr á mótinu fyrir glæsilega reiðmennsku og var Védís Huld annar þessara knapa og hlaut Feather Price verðlaun.

Átta íþróttamenn tilnefndir
Auk Védísar voru tilnefnd til verðlaunanna þau Óskar Gíslason, golf, Daníel Frans Valdimarsson, knattspyrna, Katrín Eva Grétarsdóttir, hestaíþróttir, Halldór Garðar Hermannsson, körfuknattleikur, Róbert Khorchai Angeluson, frjálsar íþróttir, Gyða Dögg Heiðarsdóttir, akstursíþróttir og Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir, fimleikar.

Þá fengu fimm íþróttamenn viðurkenningar fyrir Íslands- eða bikarmeistaratitla eða landsliðssæti. Það voru þau Styrmir Þrastarson og Ísak Júlíus Perdue fyrir körfubolta, Sölvi Örn Heiðarsson og Viktor Karl Halldórsson fyrir frjálsar íþróttir og Glódís Rún Sigurðardóttir fyrir hestaíþróttir.

Fyrri greinVís­ir að Fróðasetri í Odda
Næsta greinHafa merkt 152 miltisbrunagrafir