Védís Huld sigraði Meistaradeild ungmenna

Védís Huld og Ísak frá Þjórsárbakka að afloknu lokamóti meistaradeildarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Védís Huld Sigurðardóttir, Hestamannafélaginu Sleipni, sigraði í Meistaradeild ungmenna í vetur en lokamót deildarinnar var haldið í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli síðastliðinn laugardag.

Á þessu síðasta móti var keppt í tölti T1 og 100 m skeiði. Védís Huld keppti í tölti á Ísak frá Þjórsárbakka en þau stóðu efst eftir forkeppni með 7,43 í einkunn og sigruðu þau æsispennandi A úrslitin með 7,94 í aðaleinkunn.

Jón Ársæll Bergmann, Hestamannafélaginu Geysi, og Heiður frá Eystra-Fróðholti urðu í 5. sæti í A úrslitum með 7,06 í einkunn en Jón Ársæll mætti í skeiðið á Rikka frá Stóru-Gröf og voru þeir fljótastir allra á tímanum 5,56 sek.

Þegar stigin höfðu verið talin eftir lokamótið stóð Védís Huld efst allra með 40 stig í einstaklingskeppninni eftir hörkukeppni við Matthías Sigurðsson, Fáki, sem varð annar með 39 stig.

Í liðakeppninni var það lið Hrímnis sem sigraði með 392,5 stig en lið Hjarðartúns varð í 2. sæti með 373 stig.

Fyrri greinErla Þórey nýr formaður USVS
Næsta greinAtvinnubrú tengir háskólasamfélagið og atvinnulífið