Vatnsveðrið setur strik í reikning golfara

Það hefur rignt víða hressilega á Suðurlandi það sem af þessum mánuði og reyndar í allt sumar. Þessar aðstæður hafa haft mikil áhrif á golfiðkun landsmanna og Kiðjabergsvöllur hefur ekki farið varhluta af því.

Aðsóknin hefur verið mun minni en undanfarin ár og tekjur dregist saman. Það vill til að klúbburinn er nánast skuldlaus og því er hann betur í stakk búinn til að takast á við tekjumissinn.

Jóhann Friðbjörnsson, formaður og framkvæmdastjóri GKB, segir á heimasíðu klúbbsins að þetta mikla vatnsveður í sumar hafi sett mark sitt á reksturinn. „Það segir sig sjálft að fólk er ekki að koma og spila í grenjandi rigningu. Þó svo að völlurinn okkar taki vel við vatni, má öllu ofgera. Ég man ekki eftir svona mikilli úrkomu eins og hefur verið hér í sumar. Þetta á ekki bara við um okkar völl, heldur er sama ástand víða annarsstaðar. Við höfum þurft að fresta eða færa til öll mót sumarsins, fyrir utan meistarmótið, og það hefur haft sitt að segja varðandi innkomu í kassann,“ sagði Jóhann.

„Þetta ástand hefur auðvitað áhrif á tekjurnar, sem verða ekki eins og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun,“ sagði Jóhann. Völlurinn hefur fengið að finna fyrir bleytunni og hafa starfsmenn því m.a. neyðst til að skipta um jarðveg á stóu svæði á 2. braut.

Vel heppnuðum áfanga í að laga umhverfið í kringum flötina á 2. braut, sem hefur verið mjög blaut í rigningunni í þessum mánuði, er nú lokið. Skipt var um jarðveg við flötina á 130 fermeta svæði og drenlagnir hreinsaðar. Fyllt var upp með drenmöl og tyrft yfir. Í næstu viku verður haldið áfram að tyrfa í skemmdir á brautinni.

Fyrri greinÆgismenn töpuðu á Dalvík
Næsta greinÍbúafundur um Kötlu