Vatnsfimi er ekki bara fyrir konur og eldra fólk

Á dögunum fagnaði fyrirtækið Vatn og heilsa á Selfossi fimmtán ára afmæli en það sérhæfir sig í vatnsfimi og annari heilsutengdri þjálfun fyrir fólk á öllum aldri.

Stofnandi þess er Elísabet Kristjánsdóttir sem fór af stað með vatnsfimi fyrir konur haustið 1998. Seinna gengu Ásdís Ingvarsdóttir og Sigrún Hreiðarsdóttir til liðs við Elísabetu og eru þær einnig eigendur fyrirtækisins í dag en þær eru allar menntaðir íþróttafræðingar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Vatn og heilsa var stofnað en í upphafi voru iðkendurnir 30 en eru í dag um 180.

Vatnsþjálfun var óplægður akur
„Þegar ég var í íþróttakennaranáminu var mér bent á að þjálfun í vatni væri að mörgu leyti óplægður akur og ég hafði það á bakvið eyrað. Í kjölfarið leituðu til mín nokkrar konur hér á Selfossi sem höfðu verið í vatnsleikfimi og ýttu á mig að gera eitthvað meira með þetta. Þannig byrjaði ég með tvo hópa þarna um haustið,“ rifjar Elísabet upp. Haustið 1999 bætast svo fleiri tímar við, meðal annars á morgnana. Konurnar voru ánægðar og héldu flestar af þeim, sem byrjuðu í upphafi, áfram að mæta.

Gigtarhópar, meðgönguhópar og gönguhópur
Vinsældir vatnsfiminnar héldu áfram að aukast jafnt og þétt „Við byrjuðum með gigtarhópa og hópa fyrir eldri borgara. Svo fjölgar í kennarahópnum árið 2000 þegar Sigrún gengur til liðs við mig og svo bættist Ásdís í hópinn árið 2003 en þær urðu meðeigendur árið 2007,“ segir Elísabet. Þær stöllur fóru að bjóða upp á meðgönguhópa árið 2005 og gönguhópurinn var stofnaður árið 2007. „Í þeim hópi er fólk sem hefur gaman af útivist og hreyfingu en hann æfir þrisvar sinnum í viku og fer í 1-2 fjallgöngur í mánuði,“ segir Elísabet en hópurinn hefur til dæmis farið á Hvannadalshnjúk annað hvert ár.

Félagsskapurinn skiptir mikli máli
Elísabet segir að félagsskapurinn skipti miklu máli í kringum bæði gönguhópinn og vatnsfimina. „Eftir allar lengri göngur hjá gönguhópnum er slegið upp grillveislu og haldnar kvöldvökur. Það er eins með vatnsfimina þar sem konurnar hittast í pottinum til að spjalla áður en þær mæta í tíma. Sumar hverjar hafa fylgt okkur frá upphafi,“ segir Elíasbet.

Meirihluti þeirra sem stundar vatnsfimina eru konur en þó má finna karlmenn í þeim hópi. „Margir karlmenn þora ekki að koma í tíma vegna þess að þeir halda að svona vatnsleikfimi sé aðeins fyrir konur og gamalt fólk en það er alls ekki þannig,“ segir Elísabet og hlær. Hún segir að Vatn og heilsa standi mjög framarlega í vatnsfimi hér á landi enda byggir starfið á faglegum grunni auk þess sem þær séu duglega að kynna sér nýjustu strauma og stefnur þegar kemur að vatnsfimi.