Varnarsigur gegn Gróttu á Nesinu

Sverrir Pálsson stöðvar Hergeir Grímsson í leik gegn Stjörnunni í vetur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Liðin eru á svipuðum stað á töflunni og því mikilvæg stig í boði.

Grótta skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins en Selfoss jafnaði 4-4 þegar sextán mínútur voru liðnar af leiknum. Eins og tölurnar gefa til kynna var vel slípaður sóknarleikur ekki í hávegum hafður í kvöld og staðan var einungis 7-7 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn vel, skoruðu fyrstu fjögur mörkin en Grótta skoraði þá fjögur í röð og jafnaði 11-11, þegar 41 mínúta var liðin af leiknum. Selfoss jók forskotið aftur í fjögur mörk, 13-17 en á síðustu fimm mínútunum spilaði Grótta dúndrandi sóknarbolta og náði að minnka muninn í eitt mark, 17-18. Selfyssingar stóðu áhlaupið af sér og sigruðu að lokum, 18-20.

Eins og oftast í vetur var Einar Sverrisson markahæstur Selfyssinga með 6/1 mörk, Sigurður Snær Sigurjónsson og Karolis Stropus skoruðu 4, Sæþór Atlason og Ísak Gústafsson 2 og þeir Sölvi Svavarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu 1 mark hvor.

Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss og var með 42% markvörslu. Maður leiksins var hins vegar varnarmaðurinn Sverrir Pálsson sem átti 9 lögleg stopp í vörninni, 1 blokkað skot og 1 stolinn bolta.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 11 stig en Grótta er í 8. sæti með 8 stig.

Fyrri greinVel fylgst með skjálftum í Mýrdalsjökli
Næsta greinHorseDay hlýtur 100 milljóna króna hlutafjáraukningu