„Varnarleikurinn var frábær“

Selfoss lagði Þrótt að velli í fyrsta leik í 4-liða úrslitum umspils 1. deilar karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Sigurinn var öruggur, 27-16.

Gestur Einarsson frá Hæli skrifar úr Vallaskóla.

„Ég er virkilega ánægður með sigurinn í dag og ánægður með fólkið í stúkunni og stuðninginn sem við fengum í leiknum. Ég held að okkar leikmenn hafi spilað eftir stemmningunni í dag, mikill kraftur í okkur og liðsheild, stemning og það var mjög gaman hjá okkur í dag,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Varnarleikurinn var frábær og við vorum ekki búnir að fá mörg mörk á okkur í leiknum sem skiptir gríðalega miklu máli, vorum yfir 21-10 þegar tólf mínútur voru eftir og það var varnarleikurinn hjá okkur sem hjálpaði okkur mikið.“

Selfoss leiddi allan leikinn en leikurnn var nokkuð jafn framan af fyrri hálfleik og var staðan 7-5 er tuttugu mínútur voru liðnar. Gestirnir misstu tvo leikmenn útaf með 15 sekúnda millibili og nýttu Selfyssingar sér það og hleyptu Þrótti ekki lengra inn í leikinn. Staðan var 13-7 í hálfleik.

Markvarslan og vörn Selfoss var frábær í fyrri hálfleik og varði Birkir Fannar Bragason hvað eftir annað auk þess sem Helgi Hlynsson kom inn á og varði fjögur víti í leiknum.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn líkt og þeir enduðu þann fyrri og er 40 mínútur voru liðnar af leiknum var Selfoss með átta marka forystu 18-10. Þróttur skoraði ekki í heilar fimmtán mínútur og var staðan 23-12 þegar tíu mínútur voru til leiksloka og urðu lokatölur 27-16.

Alexander Már Egan var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Guðjón Ágústsson skoraði 5, Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson 4, Hergeir Grímsson, Árni Geir Hilmarsson og Andri Már Sveinsson 2 og þeir Örn Þrastarson og Atli Kristinsson skoruðu 1 mark hvor.

Birkir Fannar Bragason varði 15 bolta í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 5/4. Elvar Örn Jónsson gaf sjö stoðsendingar í leiknum.

Fyrri grein40 milljónir til Landgræðslunnar vegna Skaftárhlaups
Næsta greinFramlög hækka á milli ára