„Varnarleikurinn vægast sagt barnalegur“

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, var ekki sáttur við leik sinna manna í kvöld en liðið tapaði 2-3 gegn Val á heimavelli.

„Mér fannst fyrri hálfleikur ömurlegur af okkar hálfu og það er áhyggjuefni að við skyldum ekki mæta til leiks vitandi hvað þetta gæti reynst okkur dýrmætur leikur,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

„Það er ekki fyrr en í seinni hálfleik að menn sýna aðeins tennurnar en það er bara of seint. Í þessari deild er ekki hægt að velja sér einn hálfleik hér eða þar. Þetta hefur verið svona áður og það er mitt vandamál að reyna að leysa þetta,“ segir Guðmundur og bætir við að spilamennskan sem slík sé ekki stóra áhyggjuefnið.

„Varnarleikur alls liðsins frá fremsta manni er vægast sagt barnalegur og við þurfum að laga þetta einn, tveir og þrír. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn vinni marga leiki ef þeir fá tvö þrjú mörk á sig í hverjum leik.“

Selfyssingar eiga erfiða leiki framundan gegn þremur efstu liðunum áður en Grindvíkingar koma í heimsókn í lokaumferðinni. „Við ætlum að sjálfsögðu að reyna að vinna þessa leiki. Það er vonandi að menn átti sig á því að það þarf að leggja sig fram í níutíu mínútur plús gegn öllum liðunum í þessari deild. Það virðast ekki allir búnir að átta sig á því,“ segir þjálfarinn. „Það eru fjórir leikir eftir og við verðum að fara að hala inn stig. Við þurfum að vinna einhverja leiki og við verðum klárir í það í næsta leik.“