Vantar lítið uppá – úrslitaleikur á laugardag

Á heimaleikjum Knattspyrnufélags Árborgar hefur undanfarið verið starfrækt góðgerðarsjoppa þar sem safnað er fyrir sjónvarpi í skammtímavistunina í Álftarima 2.

Í fyrra söfnuðu Árborgarar fyrir Lay-Z-Boy stól fyrir Kotið, sem er frístundaheimili fyrir fötluð börn á Selfossi. Sú söfnun gekk vel og því var ráðist í aðra söfnun núna.

Árborg tekur á móti KH í 8-liða úrslitum 4. deildarinnar á Selfossvelli á laugardag kl. 14:00 og þar verður góðgerðarsjoppan opin.

„Söfnunin er búin að ganga vel, við erum komnir með yfir 80 þúsund krónur þannig að það vantar ekki mikið uppá. Ef það koma 100 manns á völlinn og versla fyrir 1.000 krónur hver, eða 200 manns sem versla fyrir 500 krónur þá er þetta komið,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, glaðbeittur í samtali við sunnlenska.is.

Og honum lýst vel á leikinn gegn KH. „Já, þetta verður hörkuleikur. KH er eitt sterkasta liðið í 4. deildinni en við mætum ákveðnir til leiks og ég á von á skemmtilegum leikjum,“ segir Guðjón

Skammtímavistunin léttir álagi af fjölskyldum fatlaðra barna, ungmenna og fullorðinna sem búa í heimahúsum. Þar er áhersla lögð á eflingu athafna daglegs lífs og félagsfærni, auka lífsgæði og sjálfstæði þeirra sem þar eru.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning 586-26-500101, kt. 500101-2610.

TENGDAR FRÉTTIR:
Árborg safnar fyrir skammtímavistunina