„Vantar kannski aðeins uppá reynsluna“

Auðun Helgason, aðstoðarþjálfari Selfyssinga, var að vonum óhress eftir leikinn í kvöld. „Maður er auðvitað hundsvekktur með þessi úrslit,“ sagði Auðun.

“Það vantar kannski aðeins upp á reynsluna, en við eigum auðvitað að loka leiknum.“

Öll mörk Grindavíkur komu eftir föst leikatriði. „Þeir fáu hérna þrjú föst leikatriði og við náum ekki að hreinsa, náum ekki að standa þetta af okkur – því miður,“ sagði Auðun. „Við náttúrlega klárum þetta ekki af nógu mikilli skynsemi og klókindum. „

Á heildina litið var hann ekki ónágæður með leik liðsins. „Mér fannst hann að mörgum leyti góður. Við fáum nokkur hraðaupphlaup í stöðunni 2-1 og 3-1 sem við hefðum getað nýtt betur,“ sagði Auðun og bætti við. „En maður er náttúrlega ekki sáttur við að sleppa inn þremur mörkum, alls ekki.“

Það er eitt og annað sem hægt er að bæta að mati Auðuns. „Við erum að gefa aukaspyrnur og gefa boltann frá okkur á hættulegum svæðum inn á milli og þar af leiðandi voru þeir alltaf líklegir til að komast inn aftur, sem svo gerist,“ sagði Auðun að lokum.