Vantaði mark frá þeim vínrauðu

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 0-1 gegn Þór/KA í hörkuleik í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld á Jáverk-vellinum á Selfossi.

„Þetta var mjög góður leik­ur hjá okk­ur, mik­il bar­átta og við sköpuðum okk­ur mikið af hálf­fær­um, en það var ekki nóg. Við hefðum oft getað nýtt okk­ar stöðu á vellinum bet­ur. Það varð okk­ur helst að falli en ann­ars var þetta frá­bær leik­ur og að mínu mati vor­um við alls ekki síðra liðið,“ sagði Al­freð Elías Jó­hanns­son, þjálf­ari Sel­foss, eftir leik.

Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur en gestirnir voru fyrri til að skora. Stephany Mayor kom þeim yfir á 11. mínútu eftir að vörn Selfoss opnaðist. Tveimur mínútum síðar fékk Grace Rapp dauðafæri en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir varði frábærlega í marki Þórs/KA. Það var besta færi Selfoss í fyrri hálfleik en annars átti liðið nokkrar mjög fínar sóknir sem vantaði að binda endahnútinn á.

Staðan var 1-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun rólegri. Barbára Sól Gísladóttir komst í mjög fínt færi á 58. mínútu en skaut rétt framhjá og tveimur mínútum síðar bjargaði Cassie Boren á marklínu fyrir Selfoss.

Síðasta hálftímann skelltu liðin í lás og leikurinn var mjög lokaður og einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni þar sem fátt var um færi.

Þetta var fyrsti leikurinn í 6. umferð deildarinnar en Selfoss hefur nú 6 stig í 8. sæti. Þór/KA er með 12 stig í 3. sætinu. Öll önnur lið í deildinni eiga leik til góða en 6. umferðinni lýkur á föstudaginn.

Fyrri greinSelfoss í Meistaradeild Evrópu
Næsta greinÓvissustigi vegna Öræfajökuls aflýst