Selfoss tapaði 0-1 gegn Þór/KA í hörkuleik í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld á Jáverk-vellinum á Selfossi.
„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur, mikil barátta og við sköpuðum okkur mikið af hálffærum, en það var ekki nóg. Við hefðum oft getað nýtt okkar stöðu á vellinum betur. Það varð okkur helst að falli en annars var þetta frábær leikur og að mínu mati vorum við alls ekki síðra liðið,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur en gestirnir voru fyrri til að skora. Stephany Mayor kom þeim yfir á 11. mínútu eftir að vörn Selfoss opnaðist. Tveimur mínútum síðar fékk Grace Rapp dauðafæri en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir varði frábærlega í marki Þórs/KA. Það var besta færi Selfoss í fyrri hálfleik en annars átti liðið nokkrar mjög fínar sóknir sem vantaði að binda endahnútinn á.
Staðan var 1-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun rólegri. Barbára Sól Gísladóttir komst í mjög fínt færi á 58. mínútu en skaut rétt framhjá og tveimur mínútum síðar bjargaði Cassie Boren á marklínu fyrir Selfoss.
Síðasta hálftímann skelltu liðin í lás og leikurinn var mjög lokaður og einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni þar sem fátt var um færi.
Þetta var fyrsti leikurinn í 6. umferð deildarinnar en Selfoss hefur nú 6 stig í 8. sæti. Þór/KA er með 12 stig í 3. sætinu. Öll önnur lið í deildinni eiga leik til góða en 6. umferðinni lýkur á föstudaginn.