„Vantaði ekki að menn voru að leggja sig fram“

Það vantaði ekki fjörið þegar Selfoss tók á móti Val í Olís-deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Liðin voru með jafn mörg stig fyrir leik. Annað sætið í deildinni var í húfi en Valsmenn höfðu betur, 29-31.

Valur lyfti sér þar með upp í 2. sætið með 14 stig. Selfoss situr í 4. sæti með 12 stig.

„Það vantaði ekki að menn voru að leggja sig fram en við vorum ekki að ná þessum leik sem hefur einkennt okkur að undanförnu. Við vorum að kasta boltanum frá okkur í hraðaupphlaupum og tapa óþarflega mörgum boltum. Þeir voru grimmari en við í vörninni í seinni hálfleik og það vantaði hjá okkur að reyna að leysa það með því að fá betri færi,” sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Leikurinn fór mjög hratt af stað og en um miðjan fyrri hálfleikinn leiddu Selfyssingar 10-7. Þá kom góður kafli Valsmanna sem breyttu stöðunni í 11-12 og í kjölfarið náðu gestirnir tveggja marka forskoti. Staðan í hálfleik var 15-16.

Valur hafði frumkvæðið í síðari hálfleik en Selfyssingar eltu þá eins og skugginn, einu til tveimur mörkum á eftir. Á lokakaflanum lokaði Hlynur Morthens marki Vals og Selfyssingar fóru að skjóta illa. Heimamenn skoruðu aðeins tvö mörk á síðustu sex mínútunum og þegar upp var staðið var sigur Vals nokkuð öruggur.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 7/4 mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði 6. Einar Sverrisson og Hergeir Grímsson skoruðu 4, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Sverrir Pálsson 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Árni Steinn Steinþórsson, Alexander Egan og Magnús Öder Einarsson skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 9/1 skot og Einar Vilmundarson 7.