„Vantaði að taka frumkvæðið aftur“

Selfyssingar eiga enn eftir að ná í stig á heimavelli í Olís-deild karla í handbolta en liðið tapaði í kvöld fyrir Stjörnunni, 24-25, eftir mjög kaflaskiptan leik.

„Við vorum frábærir í fyrri hálfleik en leikurinn snerist á stuttum kafla í upphafi seinni hálfleiks og við náðum okkur aldrei á strik eftir það. Stjörnumenn voru grimmari í seinni hálfleiknum og það vantaði hjá okkur að taka frumkvæðið aftur,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Sel­fyss­ing­ar litu mjög vel út í fyrri hálfleik, spiluðu mjög fína vörn og höfðu und­ir­tök­in all­an hálfleik­inn. Staðan var 14-10 í leikhléi og mun­ur­inn hefði getað verið meiri því nokk­ur hraðaupp­hlaup og víta­köst fóru í súg­inn hjá Selfyssingum.

Stjarn­an skoraði fyrstu fjög­ur mörk­in í seinni hálfleik, jafnaði 14-14, og tók forystuna í kjölfarið. Selfyssingar fundu enga leið framhjá Sveinbirni Péturssyni markverði Stjörnunnar á tímabili og Stjarnan náði mest fjögurra marka forskoti, 19-23, þegar sex mínútur voru eftir.

Loka­mín­út­urn­ar urðu hins veg­ar spenn­andi og Einar Sverrisson náði að jafna fyrir Selfoss, 24-24, þegar tutt­ugu sek­únd­ur voru eft­ir. Stjarnan átti hins vegar síðustu sókn leiksins og skoraði sigurmarkið þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

Elv­ar Örn Jóns­son var marka­hæst­ur Sel­fyss­inga með 7/​2 mörk og Ein­ar Sverris­son skoraði 6. Andri Már Sveinsson skoraði 5/2, Guðni Ingvarsson og Guðjón Ágústsson 2 og þeir Hergeir Grímsson og Alexander Már Egan skoruðu 1 mark hvor.

Grét­ar Ari Guðjóns­son átti fínan leik og varði 21/​1 skot í marki Sel­foss.