Vandræðalaust hjá Selfyssingum (Textalýsing)

Selfyssingar lögðu HK, 4-2, í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn var nokkuð vandræðalaus þó að mörk HK hafi verið hræódýr. Bein textalýsing frá leiknum var á sunnlenska.is.

Það tók Selfyssinga tíu mínútur að brjóta ísinn gegn slakri vörn HK. Babacar Sarr átti langa sendingu innfyrir á Ibrahima Ndiaye sem vann boltann af harðfylgi upp við endalínu. Ibrahima kom boltanum á Jón Daða Böðvarsson sem átti góða sendingu fyrir og Arilíus Marteinsson kom aðvífandi á fjærstöng og hamraði boltann upp í þaknetið.

HK menn skoruðu einnig úr fyrsta alvöru færi sínu, sjö mínútum síðar. Auðun Helgason átti þá misheppnaða hreinsun frá vítateig Selfoss þar sem HK-ingar hirtu upp boltann og Atli Valsson setti boltann í netið.

Selfyssingar voru fljótir að jafna sig á þessu og komust yfir aftur fjórum mínútum síðar. Ibrahima skoraði þá glæsimark fyrir Selfoss og hamraði boltann í stöngina og inn eftir langa sendingu frá Andra Frey Björnssyni.

Þeir vínrauðu voru ekki hættir því á 25. mínútu kom Auðun Helgason Selfoss í 3-1 með skoti úr markteignum eftir aukaspyrnu Arilíusar.

Eftir þriðja mark Selfoss róaðist leikurinn nokkuð og heimamenn reyndu langar sendingar fram sem skiluðu takmörkuðum árangri. HK minnkaði svo muninn í 3-2 á 43 mínútu. Dómarakast var látið falla fyrir fætur þeirra og boltanum var þrumað undir Auðun inn í vítateig þar sem Hólmbert Friðjónsson var á auðum sjó og skoraði.

Staðan var 3-2 í leikhléinu en Selfyssingar skoruðu fjórða mark sitt úr vítaspyrnu á 51. mínútu. Einar Ottó Antonsson sólaði sig þá inn í vítateig og var felldur, Viðar Örn Kjartansson fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Eftir fjórða markið var leikurinn í öruggum höndum Selfyssinga og rann fljótlega út í sandinn. HK-menn gerðu sig ekki líklega til að skora, frekar en heimamenn. Tómas Ingi, þjálfari HK, fækkaði í vörninni þegar 15 mínútur voru eftir og eftir það voru gestirnir líklegri þó að þeir hafi ekki uppskorið nein alvöru færi.

Með sigrinum fer Selfoss upp í 3. sætið með 7 stig, eins og KA og Þróttur en næstu sex lið fyrir neðan eiga leik til góða á Selfyssinga.

Leiknum var lýst í beinni textalýsingu á sunnlenska.is og má lesa hana hér að neðan.

– Guðmundur Karl skrifar frá Selfossvelli

95. mín Uppbótartíma lokið og leikurinn flautaður af. Sanngjarn sigur Selfoss og mikilvæg stig í húsi.

94. mín Hafsteinn fyrirliði HK fær gult spjald, mögulega fyrir einhver viðskipti við Inga Rafn Ingibergsson en aðstoðardómarinn kvað upp dóminn.

90. mín Viðar með máttlaust skot eftir hornspyrnu Inga Rafns – beint í hendurnar á Ögmundi. Dómarinn er ekki farinn að líta á klukku sína.

87. mín Ásgeir Aron fær gult fyrir að tækla Jóhann Ólaf sem var að sparka frá marki Selfoss. Óþarfi hjá Ásgeiri. Selfyssingar skipta um Stokkseyringa þar sem Arilíus er tekinn af velli og Ingi Rafn settur inná.

85. mín Ekket að gerast í þessum leik. HK-ingar líklegri þessa stundina.

79. mín Skipting hjá Loga. Ibrahima Ndiaye er tekinn útaf eftir mjög góðan leik og Sævar Þór kemur inná hans í stað.

77. mín Aukaspyrna frá Arilíusi vinstra megin við vítateig HK. Boltinn siglir yfir skeytin fjær.

76. mín Tómas Ingi blæs til sóknar og veitir ekki af. Hervé Aka’a fer útaf og sóknarmaðurinn Birgir Magnússon kemur inná. HK fer í þriggja manna vörn.

75. mín HK með hornspyrnu þar sem Hafsteinn Briem fær hann á fjærstöng og skýtur í hliðarnetið. Af einhverjum ástæðum er önnur hornspyrna dæmd.

74. mín HK-ingar gera sig líklega inni í vítateig Selfoss. Þeir hafa ekki eytt miklum tíma þar í kvöld.

73. mín Már Ingólfur Másson tilkynnir vallargestum að þeir séu 464 talsins.

65. mín Sigurður Eyberg með hörkuskot. Bakverðirnir náðu vel saman þarna. Endre með sendinguna og Siggi með half volley sem fór rétt framhjá. Það liggur mark í loftinu.

63. mín Skipting hjá HK. Hólmbert fer útaf og Samúel Arnar Kjartansson kemur inná.

62. mín Stokkseyringurinn prúði, Arilíus Marteinsson, fær áminningu fyrir klaufalegt brot á Ásgeiri Aroni. Arilíus átti inni fyrir spjaldinu en brotið var óþarfi.

56. mín Hiti að færast í leikinn. Eyþór Helgi braut hressilega á Babacar og uppskar gult spjald frá Jan dómara.

55. mín Hervé Aka’a slæmir höndinni í andlitið á Jóni Daða en enginn virðist sjá það nema við félagarnir í blaðamannastúkunni.

52. mín MAAAAAAARK! 4-2 Viðar Örn fer á punktinn og skorar af öryggi.

51. mín Selfoss fær víti. Brotið á Einari Ottó. Einar sólaði sig inn í teig og tók léttan þríhyrning með Ibrahima. Augljóst víti enda mótmæla HK-ingar ekki.

47. mín Einar Ottó með hörkuskot rétt framhjá. Endre spilaði boltanum inn í teig þar sem hann barst að lokum á Jón Daða. Jón spilaði boltanum út úr teignum og lagði hann fyrir Ottó sem hitti hann vel – en ekki markið.

46. mín Leikurinn hafinn og Selfyssingar gera skiptingu. Sigurður Eyberg kemur inná fyrir Andra Frey Björnsson sem hefur átt prýðisleik.

Hálfleikur Erndre Brenne er kominn út á völl og skokkar með boltann. Spurning hvort kappinn kenni sér meins. Aðrir sitja inni í klefa og sötra te.

Hálfleikur Skotæfing hjá varamönnum Selfoss. Sigurður Eyberg smellir boltanum upp í samskeytin á meðan Ingþór ver með tilþrifum frá Inga Rafni. Spurning hvort Logi geri tvöfalda skiptingu í hálfleik.

45. mín Bíb-bíb-bííííb… Hálfleikur og ég farinn í kaffi.

43. MAAAAAARK! 3-2 Hólmbert Aron. HK-ingar fengu boltann úr dómarakasti. Jan dómari lét boltann falla fyrir fætur Eyþórs Helga sem sendi strax fastan bolta í átt að vítateig Selfoss þar sem Auðun missti boltann afturfyrir sig. Þar var Hólmbert mættur aleinn í teignum og skoraði auðveldlega.

42. mín Atli Valsson fær áminningu eftir harkalega tæklingu á Stefán Ragnar vinstra megin við vítateig Selfoss. HK-ingar fá hins vegar aukaspyrnuna en úr henni verður ekkert. Leikurinn stöðvaður vegna meiðsla í vítateig Selfoss.

40. mín Leikurinn hefur róast nokkuð. Selfyssingar reyna langar sendingar fram völlinn frekar en að spila honum upp miðjuna. Það hefur reyndar gefið ágæta raun í kvöld þó að fagmenn vilji frekar sjá boltanum spilað á jörðinni.

39. mín Hólmbert með hressilega tæklingu á Arilíus úti á hægri kantinum. Jan dómari lætur tiltal duga í þetta skipti fyrsta alvöru tækling leiksins sem hefur verið prúðmannlega spilaður.

35. mín Arilíus með góða aukaspyrnu fyrir utan vítateig HK. Ögmundur var á tánum og varði vel uppi í vinstra horninu.

33. mín Leikurinn kominn aftur í gang og Babacar virðist stálsleginn.

32. mín Babacar Sarr liggur á vellinum eftir viðskipti við HK-inga. Virðast hafa verið áhættusöm viðskipti og Trausti Brolin, sjúkraþjálfari Selfoss, fær að láta ljós sitt skína.

30. mín HK-ingar framkvæma skiptingu. Ívar Örn Jónsson er búinn að rífa sig úr upphitunargallanum og kemur inná fyrir Leif Andra Leifsson.

29. mín Selfyssingar eru í hörkustuði. Andri átti þrælflotta sendingu inn á Viðar vinstra megin í teignum en Ögmundur varði vel frá honum af stuttu færi.

26. mín Orri Sigurður Ómarsson með langskot fyrir HK, sem virtist hættulítið en Jóhann átti í nokkrum vandræðum með hann og varði í horn.

25. mín MAAAAAAAAAAAAARK! 3-1 Allt að gerast – Auðun Helgason skorar af örstuttu færi uppúr aukaspyrnu. Arilíus tók hnitmiðaða aukaspyrnu inn á miðjan markteiginn þar sem Ibrahima skallaði boltann niður. Auðun var fyrstur í boltann og þrumaði honum með tánni í netið.

24. mín Selfyssingar eru mikið sprækari það sem af er liðið fyrri hálfleiks.

21. mín MAAAAAAAAAARK! 2-1 Ibrahima Ndiaye með glæsimark fyrir Selfoss. Langur bolti frá Andra Frey í vinstri bakverðinum yfir á hægri helming vítateigs HK. Boltinn skoppaði yfir varnarmenn HK og Ibrahima hamraði hann á lofti í nærstöngina og inn.

17. mín MAAAAAAARK! 1-1 Atli Valsson jafnar fyrir HK. Frábær undirbúningur að markinu. HK-ingar spiluðu laglega upp miðjuna en sóknin virtist vera að renna út í sandinn þegar Auðun Helgason náði boltanum en mistókst að hreinsa frá. HK-ingar þjörmuðu að honum og Ásgeir Aron sendi á Atla sem renndi boltanum af öryggi hægra megin framhjá Jóhanni Ólafi.

12. mín Leikurinn hafði verið tíðindalítill fram að marki Selfoss. Liðin hafa verið að þreifa fyrir sér á miðjunni og markið kom úr fyrsta alvöru færi leiksins. HK hefur átt tvö hættulítil langskot.

10. mín MAAAAAARK! 1-0 Arilíus Marteinsson kemur Selfyssingum í 1-0. Babacar átti langa sendingu innfyrir á Ibrahima sem vann boltann af harðfylgi upp við endalínu. Ibra kom boltanum á Jón Daða sem átti góða sendingu fyrir, Arilíus kom aðvífandi á fjærstöng og hamraði boltann upp í þaknetið.

3. mín Viðar Örn á fyrsta skot að marki. Babacar átti sendingu innfyrir úr djúpinu sem Viðar hirti upp en skot hans vinstra megin úr teignum var máttlaust og fór beint í hendurnar á Ögmundi.

1. mín Leikurinn er hafinn; Jan Eric Jessen hefur flautað til leiks en honum til aðstoðar eru Viðar Helgason og Sigurhjörtur Snorrason.

19:57 Liðin hlaupa inn á völlinn en vallarþulurinn er ennþá í röð í sjoppunni að kaupa poppkorn. Verður væntanlega móður þegar hann les upp liðin.

19:55 Fimm mínútur í leik og liðin hafa lokið upphitun. Áhorfendur láta fara vel um sig í skuggsælri og skítkaldri stúkunni. Nokkur sæti laus.

19:47 Það er allt að verða vitlaust hér í blaðamannastúkunni. Fjölmiðlafulltrúi Selfoss reiðir fram sprungnar kókdósir og vallarþulurinn er fokreiður. Vallarþulur eða bullari?

19:42 Þeir áhorfendur sem twitta um leikinn eru hvattir til að nota hashtagið #orgid og viskumolar þeirra gætu ratað inn í lýsinguna hérna.

19:40 Bekkurinn hjá HK inniheldur þá félagana; Aron, Ólaf, Gunnar Geir, Birgir, Samúel Arnar, Ívar Örn og Bjarki Már.

19:37 Bekkurinn hjá Selfossi lítur vel út. Sólin skín á hann og einhver hefur skilið eftir kaffibolla þar. Elías, Sigurður Eyberg, Sævar Þór, Ingþór, Sidy Sow, Ingi Rafn og Kjartan ætla að sitja þar framan af kvöldi.

19:33 Það hefur lægt nokkuð á Selfossi og það er ágætt skjól á vellinum, amk á nyrðri vallarhelmingnum. Það er hins vegar ekkert gríðarlega hlýtt úti, 8,1°C hiti og 38% raki. Loftþrýstingur er stöðugur 1019,2 hPa

19:28 Byrjunarlið HK: Ögmundur – Aaron, Hafsteinn, Hevré, Leifur – Atli, Ásgeir Aron, Orri, Hólmbert, Fannar – Eyþór Helgi

19:26 Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur – Endre, Stefán, Auðun, Andri – Ibrahima, Babacar, Einar Ottó, Jón Daði – Arilíus – Viðar Örn

19:25 Byrjunarliðin eru komin í hús. Ein breyting er á byrjunarliðinu Arilíus Marteinsson kemur aftur inn í byrjunarliðið eftir meiðsli og Sævar Þór Gíslason víkur fyrir honum.

19:24 Fyrir leik eru Selfyssingar í 9. sæti deildarinnar með 4 stig en HK situr á botninum með 1 stig.