Valur sendi Selfoss á botninn

Selfyssingar töpuðu fyrir Valsmönnum í N1-deild karla í handbolta í gærkvöldi, 26-25, og eru þar með komnir í botnsæti deildarinnar.

Valsmenn byrjuðu betur í leiknum en lokamínúturnar urðu æsispennandi. Valur komst í 4-0 og leiddi 11-9 í hálfleik.

Selfyssingar tóku sig hins vegar á þegar leið á seinni hálfleik. Þeir voru þó allan tímann skrefinu á eftir heimamönnum og sigur Vals var ekki í teljandi hættu. Selfoss minnkaði muninn í eitt mark þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum og höfðu aldrei tækifæri til að jafna leikinn.

Ragnar Jóhannsson var að venju markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk. Atli Kristinsson og Atli Einarsson skoruðu 4, Helgi Héðinsson, Hörður Bjarnarson og Guðni Ingvarsson voru með 2 mörk hver og þeir Guðjón Drengsson, Eyþór Lárusson og Gunnar Jónsson skoruðu allir 1 mark.

Helgi Hlynsson varði 7 skot í marki Selfoss og Birkir Bragason 5.