Valur og Stjarnan unnu sína leiki

Valur vann Gróttu og Stjarnan vann HK á fyrsta degi Ragnarsmótsins í handbolta sem hófst í Vallaskóla á Selfossi í kvöld.

Valur vann tuttugu marka sigur á 1. deildarliði Gróttu, 13-33, en staðan var 6-14 í hálfleik. Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur Valsmanna með sex mörk en Aron Jóhannsson, Styrmir Sigurðsson og Viggó Kristjánsson skoruðu allir þrjú mörk fyrir Gróttu.

Það var meiri spenna í leik Stjörnunnar og HK en Garðbæingar voru þó skrefinu á undan og leiddu í hálfleik 11-8. Stjarnan jók forskotið lítillega í síðari hálfleik en lokatölur urðu 25-21. Ari Pétursson og Hjálmtýr Alfreðsson skoruðu báðir sex mörk fyrir Stjörnuna en Guðni Már Kristinsson var markahæstur hjá HK með fimm mörk.

Selfyssingar hefja keppni á morgun en heimamennirnir mæta þá Stjörnunni kl. 20. Í fyrri leik dagsins mætast Afturelding og Valur kl. 18:30.

Fyrri greinStjarnan sigraði aftur
Næsta greinDagný og Guðmunda í landsliðshópnum