Valur hirti heimavallaréttinn í framlengingu

Af! Glynn Watson horfir á eftir boltanum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs töpuðu fyrir Val í fyrsta leik einvígisins í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld og þurfti framlengingu til að ná fram úrslitum.

Þórsarar byrjuðu illa í leiknum en náðu vopnum sínum í 2. leikhluta og minnkuðu forskot gestanna en Valur leiddi þó í hálfleik, 35-42. Þór byrjaði betur í seinni hálfleiknum og eftir fimm mínútna leik og tvær risa þriggja stiga körfur í röð var staðan orðin 53-49. Heimamenn héldu forskotinu út 3. leikhluta og við tók æsispennandi 4. leikhluti.

Þar var lítið skorað og liðin skiptust á um að hafa forystuna í hnífjöfnum leik. Glynn Watson kom Þórsurum yfir með þristi þegar 20 sekúndur voru eftir, 77-76, en Valsmenn jöfnuðu af vítalínunni þegar 7 sekúndur voru eftir og tryggðu sér framlengingu, þar sem síðasta sókn Þórs fór í súginn.

Valur tók strax frumkvæðið í framlengingunni og var sterkari á lokamínútunni, þannig að lokatölur leiksins urðu 84-89 og staðan í einvíginu 0-1 fyrir Val. Stórsigur hjá gestunum sem náðu þar með að hirða heimavallaréttinn af Þórsurum.

Glynn Watson var stigahæstur Þórsara í kvöld með 22 stig en Daniel Mortensen var framlagshæstur með 21 stig og 14 fráköst.

Næsti leikur liðanna er á laugardagskvöld að Hlíðarenda.

Tölfræði Þórs: Glynn Watson 22/6 fráköst/6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 21/14 fráköst, Kyle Johnson 16/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 9/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6, Ronaldas Rutkauskas 6/15 fráköst/6 stoðsendingar, Luciano Massarelli 4.

Fyrri greinNýtt fólk, sama tuggan, sömu skuggastjórnendurnir
Næsta greinGleðilegt sumar!