Selfoss 2 tók á móti Val 2 í 1. deild karla í handbolta í dag. Sveiflur og spenna einkenndi leikinn sem Valur 2 vann með eins marks mun, 34-35.
Um miðjan fyrri hálfleikinn tóku Valsmenn frumkvæðið og náðu þriggja marka forystu en Selfoss skoraði þá sex mörk í röð og breytti stöðunni í 18-15. Staðan var 22-19 í hálfleik.
Valur 2 byrjaði betur í seinni hálfleik, þeir röðuðu fljótlega inn sex mörkum í röð og þá var staðan orðin 24-27. Selfoss 2 svaraði vel fyrir sig og komst yfir, 31-30, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Markvörður Vals 2 skellti þá í lás og gestirnir náðu þriggja marka forskoti. Lokakaflinn var spennandi, Selfoss 2 minnkaði muninn í eitt mark þegar ein og hálf mínúta var eftir en hvorugu liðinu tókst að skora eftir það.
Anton Breki Hjaltason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Aron Leo Guðmundsson skoraði 5, Dagbjartur Máni Björnsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Hákon Garri Gestsson og Bjarni Valur Bjarnason 4 og þeir Ragnar Hilmarsson, Hilmar Bjarni Ásgeirsson, Jason Dagur Þórisson, Dagur Rafn Gíslason, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og markvörðurinn Ísak Kristinn Jónsson skoruðu allir 1 mark. Ísak varði 5 skot í marki Selfoss og það sama gerði Einar Gunnar Gunnlaugsson.
Selfoss 2 er í 6. sæti deildarinnar með 10 stig en Valur 2 er í 4. sæti með 12 stig og hefur leikið tveimur leikjum færra.

