Valsmenn voru sterkari í lokin

Hamar tapaði 92-108 þegar Valsmenn komu í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en í upphafi 2. leikhluta náðu Valsmenn góðu forskoti. Hamar skoraði hins vegar síðustu fimm stigin í fyrri hálfleik og minnkaði muninn í 42-47.

Hamar byrjaði betur í seinni hálfleik en um miðjan 3. leikhluta tóku Valsmenn aftur forystuna og létu hana ekki af hendi eftir það. Hamar elti allan síðasta leikhlutann og munurinn var í kringum tíu stig þangað til í lokin að Valur afgreiddi leikinn endanlega með 13-3 áhlaupi.

Hamar er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en Valur er í 3. sætinu með 18 stig.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 28 stig/14 fráköst, Bjarki Friðgeirsson 14 stig, Oddur Ólafsson 12 stig/4 fráköst/7 stoðsendingar, Snorri Þorvaldsson 11 stig/4 fráköst, Hilmar Pétursson 10 stig/5 stoðsendingar, Örn Sigurðarson 9 stig, Arvydas Diciunas 3 stig, Mikael Rúnar Kristjánsson 2 stig, Hlynur Snær Wiium Stefánsson 2 stig, Smári Hrafnsson 1 stig.