Valsmenn slökktu vonarneista Þórs í lokin

Fotios Lampropoulos. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það syrtir enn í álinn hjá Þórsurum sem mættu toppliði Vals í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur að Hlíðarenda urðu 105-97.

Fimm umferðum er nú lokið í deildinni og Þórsarar eru í botnsætinu og hafa ekki unnið leik. Það blés ekki byrlega framan af leik í kvöld, Valsmenn fóru hamförum í sókninni og leiddu 36-26 eftir 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 61-50 í hálfleik.

Útlitið var orðið ansi svart snemma í 4. leikhluta þegar staðan var orðin 90-67 en þá kviknaði loksins vonarneisti hjá Þórsurum sem skoruðu 14 stig í röð og breyttu stöðunni í 90-81. Af þessum neista varð þó ekkert bál og Valsmenn slökktu hann á lokamínútunum, munurinn var fimm stig þegar hálf mínúta var eftir, en Valsmenn kláruðu leikinn á vítalínunni og unnu að lokum með átta stiga mun.

Nýi Bandaríkjamaðurinn í liði Þórs leit vel út í sínum fyrsta leik fyrir liðið í vetur, Vincent Shahid skoraði 31 stig og sendi 10 stoðsendingar. Fotios Lampropoulos skilaði líka sínu með 24 stig og 7 fráköst og Pablo Hernandez sýndi fína takta, með 20 stig og 8 fráköst. Allir aðrir leikmenn Þórs voru með 4 eða minna í framlagseinkunn og það dugar ekki til sigurs gegn Valsmönnum.

Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 31/10 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 24/7 fráköst, Pablo Hernandez 20/8 fráköst, Adam Rönnqvist 5, Styrmir Snær Þrastarson 5/6 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 5, Davíð Arnar Ágústsson 3, Emil Karel Einarsson 2, Daníel Ágúst Halldórsson 2.

Fyrri greinGrímsnes- og Grafningshreppur sveitarfélag ársins 2022
Næsta greinLitu ekki til baka í seinni hálfleik