Valskonur sterkari á lokasprettinum

Hamar heimsótti Val í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í dag. Eftir hörkuleik hafði Valur sigur, 87-80.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en undir lok hans voru Hvergerðingar komnir með átta stiga forskot, 18-26. Valur skoraði hins vegar níu síðustu stigin í leikhlutanum og leiddi að honum loknum, 27-26.

Valskonur byrjuðu 2. leikhluta af krafti, með 15-2 áhlaupi og staðan var þá orðin 42-28. Hamar svaraði hins vegar fyrir sig fyrir hálfleik og minnkaði muninn niður í fimm stig, 50-45 í leikhléi.

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi. Hamar komst yfir í upphafi og breytti stöðunni í 52-55 en Valur kom til baka og leiddi 65-61 að leikhlutanum loknum.

Hamar náði ekki að knýja fram sigur í 4. leikhluta en munurinn varð minnstur tvö stig í upphafi hans. Valskonur héldu aftur af Hamri og höfðu forystuna allan leikhlutann. Hamar skoraði síðustu fimm stigin í leiknum á lokamínútunni og að lokum skildu sjö stig liðin að.

Hamar er enn á botni deildarinnar án stiga að loknum fjórum umferðum.

Tölfræði Hamars: Nína Jenný Kristjánsdóttir 24 stig/10 fráköst/4 varin skot, Suriya McGuire 22 stig/15 fráköst/9 stoðsendingar (24 í framlagseinkunn), Íris Ásgeirsdóttir 16 stig/4 fráköst, Heiða Björg Valdimarsdóttir 10 stig/5 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 5 stig/6 fráköst/6 varin skot, Helga Vala Ingvarsdóttir 3 stig/4 fráköst.

Fyrri greinBrenndist á fæti í Reykjadal
Næsta greinÖruggur sigur Selfyssinga